Meistaraflokkur karla sigraði í Egilshöll í gær
Meistaraflokkurinn bar sigur úr býtum í leik gærdagsins í Egilshöllinni með 6 mörkum gegn 3. Þrátt fyrir markamuninn var sigurinn ekki auðveldur en Björninn er með skemmtilegt lið, marga hraða leikmenn sem spila af miklum ákafa þannig að lítið ráðrúm gefst til að dóla með pökkinn. Leikurinn var jafn í upphafi og liðin skiptust á að skora. Fyrsta mark leiksins skoraði hinn ungi og efnilegi Jóhann Leifsson eftir sendingar frá Stefáni Hrafnssyni og Sigurði Sigurðssyni. Björninn jafnaði leikinn áður en SA jók forystuna aftur eftir mark frá Sigurði Sigurðssyni í power play. Björninn var hins vegar ekki hættur og Brynjar Þórðarson jafnaði leikinn fyrir lok lotunnar, staðan því 2-2 eftir 1. lotu.