15.09.2023
SA Víkingar hefja tímabilið í Hertz-deildinni um helgina þegar liðið tekur á móti Íslandsmeisturum síðasta tímabils, Skautafélagi Reykjavíkur. Litlar breytingar eru á hóp SA Víkinga frá síðasta tímabili en hefur þó misst þrjá leikmenn en það eru landsliðsleikmennirnir Gunnar Arason, Heiðar Gauta Jóhannsson og Halldór Skúlason sem eru allir farnir til liða í Svíþjóð. En þrátt fyrir þennan missi er hópurinn þéttskipaður með góðri blöndu af gríðarlega sterkum reynsluboltum og enn stærri hóp ungra og efnilegra leikmanna sem hafa verið að gera sig gildandi í deildinni en einnig kemur ný kippa af leikmönnum inn úr unglingastarfinu. Nýr þjálfari er einnig kominn í brúnna en Jamie Dumont mun stýra liðinu í vetur og verður spennandi að fylgjast með liðinu undir hans stjórn.