Um félagið

Skautafélag Akureyrar var stofnað 1. janúar 1937. Félagið hefur það að markmiði að efla skautaíþróttina og hefur rekið Skautahöllina á Akureyri síðan um áramótin 1999-2000.

Hinn 1. janúar 1937 var Skautafélag Akureyrar stofnað í Skjaldborg, húsi góðtemplara, Hafnarstræti 67. Tilgangur félagsins var: ”... eingöngu að efla og iðka skautahlaup og skautaíþróttir” eins og sagði í fyrstu lögum félagsins. Skemmtanahald og þvíumlíkt, sem hafði sett svip sinn á sum önnur félög, skyldi ekki eiga upp á pallborð félagsmanna. Þeir ætluðu að leggja stund á hraðhlaup, listhlaup, íshokkí og siglingar um ísi lagðan Pollinn. Veðrið setti þó oft strik í reikninginn og það var ekki fyrr en vorið 1941 að fyrsta skautamótið fór fram á Akureyri. Á dagskránni voru skautadans, íshokkí og hraðhlaup.

Eftir stríðið rann upp gullaldartími hraðhlaupsins. Fyrsta eiginlega hraðhlaups-keppnin norðan heiða fór fram í mars 1950. Árið áður hafði bæjarstjórn eftirlátið Skautafélaginu norðanverða Krókeyrina og þar með hófst uppbygging fyrsta félagssvæðis SA.

Þegar kom fram á 7. áratuginn dró mjög úr vinsældum hrað-hlaupsins og hefur síðan farið lítið fyrir því innan vébanda SA.

Íshokkíið hélt hins vegar velli en þá íþrótt höfðu SA-menn ávallt stundað og aldrei slegið slöku við allan hraðhlaups-áratuginn. Fyrsta Akureyrarmótið í íshokkí var haldið haustið 1958. Tíu árum síðar, eða í febrúar 1968, var efnt til fyrstu bæjarkeppninnar á milli Reykjavíkur og Akureyrar og fyrsta Íslandsmótið í íshokkí fór fram 1980. SA sigraði.

Hin síðari ár hefur listhlaup átt mjög vaxandi fylgi að fagna. Fyrsta keppnin á Íslandi í listhlaupi var haldin að frumkvæði SA hinn 25. nóvember 1989. Fyrsta Íslandsmótið í greininni fór fram þremur árum síðar eða í mars 1992 og hefur SA eignast marga Íslandsmeistara í greininni. Á þessum árum sem liðin eru frá stofnun SA hefur æfingaaðstaða félagsmanna tekið miklum stakkaskiptum. Í upphafi réð frost og funi allri æfingaaðstöðu. Í janúar 1988 varð bylting í þessum efnum þegar vélfrysting var tekin í gagnið á Krókeyri.

Krulludeild Skautafélags Akureyrar var stofnuð á aðalfundi Skautafélagsins í maí 1996. Í árslok sama ár hélt deildin innanfélagsmót í krullu og var það hið fyrsta sinnar tegundar sem sögur fara af á Íslandi. Starfsemi deildarinnar hefur staðið óslitið síðan með reglulegum æfingum og mótahaldi. Fyrsta Íslandsmótið var haldið í upphafi árs 2002.

Hinn 25. mars 2000 var Skautahöllin á Akureyri formlega vígð af Hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, hafði þar með langþráður draumur skautafólks rætst og Skautahöllin verið opnuð til æfinga og skemmtunar fyrir almenning.