28.09.2025
Í byrjunseptember buðum við foreldrum og forráðamönnum iðkenda í U14, U16 og U18 á fræðslufyrirlestur um samskipti. Á þessum aldri geta samskipti verið krefjandi og því mikilvægt að ræða þau sérstaklega. Kristín Skjaldardóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, fjallaði um samskipti í ýmsum myndum og hvernig foreldrar geta brugðist við ef ágreiningur kemur upp. Hún ræddi hvernig leysa má úr málum á farsælan hátt, hvaða boðleiðir eru í boði og spurði að lokum hvort við sem foreldrar værum góðar fyrirmyndir í samskiptum.
24.09.2025
Fyrsti heimaleikur tímabilsins er um helgina en þá tekur SA á móti Skautafélagi Reykjavíkur í Toppdeild kvenna í Skautahöllinni kl. 16:45 á laugardag. Bæði lið hafa spilað einn leik og lagt Íslandsmeistara síðasta tímabils að velli og því um toppslag að ræða. Árskortasalan er í fullum gangi á Stubb og þar er einnig forsala miða. Hamborgarasalan hefst 30 mín fyrir leik og Sjoppan Ásgarður opin.
24.09.2025
Ungmenna U22 liðið okkar gerði sér lítið fyrir og sigraði meistaraflokk Fjölnis í gærkvöld í Toppdeild karla. Úrslitin eru í raun ótrúleg en fullkomlega verðskulduð því liðið okkar spilaði frábæran hokkíleik og voru sterkari aðilinn í leiknum. Bjarmi Kristjánsson var frábær í leiknum fyrir SA en hann skoraði 3 mörk og átti auk þess eina stoðsendingu. Robbe Delport og Marek Vybostok skoruðu báðir 2 mörk í leiknum og Bjarki Jóhannsson eitt mark. Elías Rúnarson var eins og klettur í markinu í sínum fyrsta leik í meistaraflokki og var með 31 pökk varðan og 93,9% markvörslu.
21.09.2025
Ungmennalið SA 22 ára var nálægt því að skrifa í sögubækurnar í gærkvöld þegar liðið mæti sterku meistaraflokksliði SR í Laugardal. SA liðið var hársbreidd frá því að stela stigum en SR hafði að lokum betur 4-3 eftir æsispennandi lokamínútur.
18.09.2025
Árskortasalan er hafin á Stubb.
Tryggðu þér frábært verð af öllum heimaleikjum í vetur og styrktu stelpurnar og strákana í leiðinni.
Öllum ársmiðum fylgir aðgangur að betri stofunni Miðgarði - fyrir leik og í leikhléi. ❤️🤍🖤
Ársmiði á kvennaleiki SA - 10.000 kr.
Ársmiði á karlaleiki SA - 10.000 kr.
Ársmiði SA FAN - gildir á bæði karla og kvennaleiki - 15.000 kr.
Silfurkort SA – 25.000 kr. Þitt eigið sæti í stúku – allir leikir karla og kvenna ➕ úrslitakeppni!
Gullkort – 70.000 kr. Uppselt – (hafið samband til að komast á biðlista)
13.09.2025
Meistaraflokkur karla, SA Víkingar, hefja titilvörnina í Toppdeild karla í dag þegar liðið mætir Fjölni í Egilshöll. Eftirvæntingin er mikil í herbúðum SA en í dag lýkur 4 mánaða undirbúningstímabili leikmanna en hópurinn verið saman í 6 vikur á ís. Nýtt tímabil, nýtt fyrirkomulag og áskoranir með breyttan leikmannahóp – en markmiðið er skýrt: að verja titilinn og koma honum aftur heim til Akureyrar.
13.09.2025
Robbe Delport hefur bæst í leikmannahóf SA Víkinga en hann er 18 ára Belgískur sóknarmaður sem kemur frá Chiefs Leuven sem spilar í Belgísku deildinni. Robbe er virkilega efnilegur og spennandi leikmaður en Robbe hefur verið fyrirliði Belgíska unglingalandsliðsins og var fastamaður í Belgíska A-landslið síðasta vetur. Robbe mun starfa við þjálfun yngstu aldursflokkana hjá klúbbnum í vetur. Við bjóðum Robbe hjartanlega velkominn í klúbbinn og hlökkum til að sjá hann með SA Víkingum í vetur.
12.09.2025
SA Víkingar hafa samið við Hank (Harrison) Nagel en hann er 25 ára varnarmaður og kemur frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið úr hokkíhéraðinu Minnesota. Hank er mjög sterkur varnarmaður en lipur miðað við stærð (193cm) og bætir gæðum í sóknarleikinn hjá SA Víkingum. Hank kemur einnig til með að þjálfa hjá félaginu en hann verður aðstoðarþjálfari SA kvenna og aðstoðar einnig í yngri flokka þjálfun. Hank kemur til okkar frá H.C. Jaca á Spáni þar sem hann spilaði síðasta vetur. Við bjóðum Hank hjartanlega velkominn í klúbinn og hlökkum til að sjá hann á ísnum með SA Víkingum í vetur.
05.09.2025
Kvennalið SA hefur tímabilið á Íslandsmótinu í Toppdeild kvenna á morgun þegar liðið ferðast suður yfir heiðar og mætir ríkjandi Íslandsmeisturum Fjölnis. Liðin í deildinni hafa öll tekið breytingum frá síðasta tímabili og vatn hefur runnið bæði norður og yfir lækinn.
SA liðið hefur styrkt sig í sumar með einum leikmanni en sú viðbót gæti reynst púslið sem liðinu hefur vantað. Kolbrún Garðarsdóttir er snúin aftur í SA en hún hefur verið SA liðinu ljáfur að eiga við síðustu ár með liði Fjölnis. Engin leikmaður hefur yfirgefið hópinn frá síðasta tímabili og hópurinn því öflugri og reynslumeiri en áður - með blöndu af reyndum landsliðskonum og stórum hópi efnilegra leikmanna sem berjast af krafti um sín sæti. Marvarðarstaðan er áfram virkilega sterk með Shawlee Gaudreault áfram í markinu en hún hefur verið besti markvörður deildarinnar um árabil og sýnt ótrúlegan stöðugleika.
05.09.2025
Það er alltaf skemmtilegt þegar uppaldir leikmenn snúa aftur heim til að klæðast rauðu treyjunni. Þrír ungir en gríðarlega sterkir og spennandi leikmenn eru klárir og gera meistaraflokkana okkar enn sterkari í toppbaráttunni fyrir komandi tímabil.
Kolbrún Garðarsdóttir – sóknarmaður #27 – frá Fjölni
Þarf varla að kynna en hún var marka- og stigahæsti leikmaður Toppdeildar kvenna á síðasta tímabili og allra besti leikmaður deildarinnar síðustu ár. Síðustu tvö tímabili hefur hún verið fyrirliði Fjölnis og leitt þær til Íslandsmeistaratitils í bæði skiptin. Kolbrún snýr nú aftur heim í SA og við bíðum spennt eftir að sjá hana aftur á ísnum í SA treyjunni.
Jakob Jóhannesson – markmaður #55 – úr námsleyfi
Jakob snýr aftur heim að sunnan eftir að hafa tekið sér árs námsleyfi frá hokkíinu. Jakob var fyrsti markvörður karlalandsliðsins og með bestu markvörslu deildarinnar um nokkurra ára skeið áður en hann fór í leyfið. Jakob er nú snúin heim og mættur í markið og styrkir markvarðateymi liðsins með Róberti Steingrímssyni. Við hlökkum til sjá Jakob koma sér aftur í gírinn og byrja að loka markinu.
Arnar Kristjánsson – 20 ára varnarmaður #8 – frá EJ Kassel (Þýskalandi)
Arnar Kristjánsson er einn efnilegasti varnarmaður landsins og hefur flakkað á milli þess að spila erlendis og hér heima síðustu ár. Arnar er mjög sóknarsinnaður varnarmaður og er komin með 13 A-landsleiki þrátt fyrir ungan aldur og hefur verið valinn besti varnarmaður heimsmeistaramóta með unglinga- og ungmennalandsliðum Íslands. Arnar mun styrkja varnarlínuna okkar og kemur auk þess með glimrandi sóknarleik sem verður gaman að fylgjast með í vetur.