31.08.2024
Íshokkítímabilið hefst formlega í dag með fyrstu keppnileikjunum í Íslandsmóti en það eru tveir U16 leikir sem báðir verða spilaðir eru í Skautahöllinni hjá okkur í dag. Fyrri leikurinn er lið SA Víkinga gegn Fjölni kl 16:30 og sá síðari leikur SA Jötna gegn SR kl 19:00. Ein deild er í þessu móti þar sem SA teflir fram tveimur liðum en SR og Fjölnir sitthvoru liðinu. Við hvetjum íshokkíunendur að mæta í höllina og horfa á skemmtilega íshokkíleiki.
31.08.2024
Sædís Heba Guðmundsdóttir stóð sig vel á Junior Grand Prix í Riga í Lettlandi sem kláraðist í dag. Sædís fékk 86.08 stig og var í 31. sæti í heildarstigakeppninni sem er flottur árangur á hennar fyrsta Junior Grand Prix móti. Næsta verkefni hjá þessari efnilegu skautakonu er Junior Grand Prix í Gdansk í Póllandi sem fer fram í lok september.
26.08.2024
Æfingar eru nú að hefjast aftur samkvæmt tímatöflu og starfsemi deilda félagsins er komin á fullt. Byrjendaæfingar í listhlaupi hefjast 26. ágúst og eru á mánudögum og miðvikudögum kl. 16:00-17:15 en aðrar æfingar eru samkvæmt tímatöflu. Byrjendaæfingar í íshokkí hefjast á þriðjudag og verða alla þriðjudaga og fimmtudag kl. 17:00-17:45 og aðrar æfingar samkvæmt tímatöflu. Krulluæfingar hefjast í September og verða auglýstar sérstaklega á heimasíðu krulludeildar.
18.08.2024
Föstudaginn 16. ágúst var langþráður dagur runninn upp hjá iðkendum listskautadeildinni, eftir
nokkurra ára hlé var komið að áheitaskautun/maraþonskautun. Ákveðið var að stunda æfingar
jafnt á ís og af ís frá því klukkan átta að morgni og til klukkan átján að kvöldi.
Æfingarnar gengu vel og voru þjálfarar virkjaðir með í að halda æfingunum gangandi líkt og alla
aðra daga, en auk þess héldu elstu skautararnir okkar utan um leikjaæfingar afís á milli tarna
hjá þjálfurunum okkar.
Dagskránni lauk svo með pizzuveislu og skemmtilegri samveru iðkenda og foreldra sem stóð
fram eftir kvöldi. Að lokum gistu iðkendur svo í höllinni undir vökulum augum vaskra foreldra.
Áheitasöfnunin gekk vonum framar og hafa þegar safnast 373.500 krónur. Það munar svo
sannarlega um minna í rekstrinum á litlu deildinni okkar.
Við í stjórn LSA þökkum öllum sem komu að því að gera daginn eins eftirminnilegan og hann
reyndist. Iðkendum, foreldrum/forráðamönnum styrktaraðilum og þeim sem gáfu veitingar til að
halda orku á tanki skautaranna.
30.05.2024
Það eru nóg um að vera í skautaíþróttunum í sumar fyrir fríska krakka. Í júní bíður SA uppá skauta- og íshokkí leikjanámskeið fyrir öll börn fædd 2018-2014 daganna 10. - 14. Júní Frábært tækifæri fyrir bæði byrjendur sem og iðkendur til þess að skemmta sér í leikjum og fá skautakennslu í leiðinni. Leikjanámskeiðið fer fram bæði á útisvæðinu við Skautahöllina og inni á skautasvellinu. Það er hægt að velja á milli þess að vera í listskautum eða í fullum íshokkíbúnaði í leikjunum á námskeiðinu. Allur búnaður innifalinn og engin reynsla á skautum er nauðsynleg. Sarah Smiley hefur yfirumsjón með námskeiðinu. Skráning á námskeið: sportabler.com/shop/sa/ishokki
29.05.2024
Velkomin á vorsýningu listskautadeildar - Encanto á ís á laugardag 1. júní kl 16:00 💐⛸🍀
Miðasala á staðnum:
2500 kr fyrir 18 ára og eldri
1500 kr fyrir 17 ára og yngri - frítt inn fyrir 5 ára og yngri
Foreldrafélag listskautadeildar verður með veitingasölu.
24.05.2024
Ólöf Björk Sigurðardóttir var gerð að heiðursfélaga Skautafélags Akureyrar fyrir störf sín fyrir Skautafélag Akureyrar á aðalfundi þess sem fram fór í gærkvöld. Ólöf Björk, sem lét af formennsku íshokkídeildar fyrr í vikunni, hefur verið formaður íshokkídeildar í 20 ár og setið í aðalstjórn Skautafélags Akureyrar í 15 ár.
24.05.2024
Mikil tímamót eiga sér nú hjá íshokkídeild SA þar sem að formannsskipti eru að eiga sér stað. Ólöf Björk Sigurðardóttir eða Ollý eins og við þekkjum hana hefur látið af störfum sem formaður íshokkídeildarinnar eftir 20 ár sem formaður hennar. Við keflinu tekur Elísabet Inga Ásgrímsdóttir eða Beta eins og hún er jafnan kölluð.
22.05.2024
Aðalfundur íshokkídeildar fór fram í gærkvöldi í félagssalnum í Skautahöllinni og var fundurinn vel sóttur. Á dagkrá voru hefðbundin aðalfundarstörf en fyrir fundinum lá þó að Ólöf Björk Sigurðardóttir sem hefur verið formaður deildarinnar í 20 ár myndi ekki gefa kost á sér áfram í formannsembættið.
17.05.2024
Í dag kveðjum við fyrrum skautara og þjálfara hana Evu Björg Halldórsdóttur sem lést af slysförum á síðasta vetrardag 24.apríl síðastliðinn. Við minnumst Evu Bjargar með hlýju. Hún var samviskusamur og kröftugur skautari sem sinnti æfingum og keppni í skautaíþróttinni af alúð. Þetta gerði hún samhliða æfingum og keppni á skíðum. Hennar er minnst sem góðs vinar, hvetjandi æfingafélaga og öflugs skautara. Við minnumst hennar einnig sem athugulum, samviskusömum og ljúfum þjálfara, en hún kom meðal annars að þjálfun byrjenda hjá okkur í nokkur ár.
Við sendum Vilborgu Þórarinsdóttur og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og styrk í sorginni.
Hvíldu í friði kæra Eva Björg
Stjórn LSA, stjórn SA, iðkendur og foreldrar LSA