Fréttir

13.09.2025

SA Víkingar hefja titilvörn í Toppdeild karla í dag

Meistaraflokkur karla, SA Víkingar, hefja titilvörnina í Toppdeild karla í dag þegar liðið mætir Fjölni í Egilshöll. Eftirvæntingin er mikil í herbúðum SA en í dag lýkur 4 mánaða undirbúningstímabili leikmanna en hópurinn verið saman í 6 vikur á ís. Nýtt tímabil, nýtt fyrirkomulag og áskoranir með breyttan leikmannahóp – en markmiðið er skýrt: að verja titilinn og koma honum aftur heim til Akureyrar.
13.09.2025

Robbe Delport spilar með SA Víkingum í vetur

Robbe Delport hefur bæst í leikmannahóf SA Víkinga en hann er 18 ára Belgískur sóknarmaður sem kemur frá Chiefs Leuven sem spilar í Belgísku deildinni. Robbe er virkilega efnilegur og spennandi leikmaður en Robbe hefur verið fyrirliði Belgíska unglingalandsliðsins og var fastamaður í Belgíska A-landslið síðasta vetur. Robbe mun starfa við þjálfun yngstu aldursflokkana hjá klúbbnum í vetur. Við bjóðum Robbe hjartanlega velkominn í klúbbinn og hlökkum til að sjá hann með SA Víkingum í vetur.
12.09.2025

Minningarorð um Jón Björnsson

Í dag var borinn til grafar Innbæingurinn Jón Björnsson, heiðursfélagi í Skautafélagi Akureyrar. Jón, eða Nonni Björns eins og við flest þekkjum hann, ólst upp í Innbænum, í Aðalstræti 54 og fór snemma að renna sér á skautum og spila íshokkí líkt og bræður hans, Hermann, Davíð og Héðinn. Nonni varð fljótt mikill Skautafélagsmaður og lagði mikla vinnu í félagið og uppbyggingu þess og var formaður félagsins fyrst á árunum 1976 – 1979 og svo aftur 1994 – 1996. Framlag hans til félagsins var margþætt en auk þess að standa að uppbyggingu skautasvæðanna spilaði hann íshokkí, tók að sér þjálfun og dómgæslu. Fyrir óeigingjarnt framlag sitt var Nonni gerður að heiðursfélaga í Skautafélagi Akureyrar árið 2012.
12.09.2025

Hank Nagel til SA Víkinga

SA Víkingar hafa samið við Hank (Harrison) Nagel en hann er 25 ára varnarmaður og kemur frá Bandaríkjunum, nánar tiltekið úr hokkíhéraðinu Minnesota. Hank er mjög sterkur varnarmaður en lipur miðað við stærð (193cm) og bætir gæðum í sóknarleikinn hjá SA Víkingum. Hank kemur einnig til með að þjálfa hjá félaginu en hann verður aðstoðarþjálfari SA kvenna og aðstoðar einnig í yngri flokka þjálfun. Hank kemur til okkar frá H.C. Jaca á Spáni þar sem hann spilaði síðasta vetur. Við bjóðum Hank hjartanlega velkominn í klúbinn og hlökkum til að sjá hann á ísnum með SA Víkingum í vetur.
05.09.2025

Kvennaliðið hefur leik í Toppdeildinni á morgun

Kvennalið SA hefur tímabilið á Íslandsmótinu í Toppdeild kvenna á morgun þegar liðið ferðast suður yfir heiðar og mætir ríkjandi Íslandsmeisturum Fjölnis. Liðin í deildinni hafa öll tekið breytingum frá síðasta tímabili og vatn hefur runnið bæði norður og yfir lækinn. SA liðið hefur styrkt sig í sumar með einum leikmanni en sú viðbót gæti reynst púslið sem liðinu hefur vantað. Kolbrún Garðarsdóttir er snúin aftur í SA en hún hefur verið SA liðinu ljáfur að eiga við síðustu ár með liði Fjölnis. Engin leikmaður hefur yfirgefið hópinn frá síðasta tímabili og hópurinn því öflugri og reynslumeiri en áður - með blöndu af reyndum landsliðskonum og stórum hópi efnilegra leikmanna sem berjast af krafti um sín sæti. Marvarðarstaðan er áfram virkilega sterk með Shawlee Gaudreault áfram í markinu en hún hefur verið besti markvörður deildarinnar um árabil og sýnt ótrúlegan stöðugleika.
05.09.2025

Þrír sterkir leikmenn snúa aftur heim í SA

Það er alltaf skemmtilegt þegar uppaldir leikmenn snúa aftur heim til að klæðast rauðu treyjunni. Þrír ungir en gríðarlega sterkir og spennandi leikmenn eru klárir og gera meistaraflokkana okkar enn sterkari í toppbaráttunni fyrir komandi tímabil. Kolbrún Garðarsdóttir – sóknarmaður #27 – frá Fjölni Þarf varla að kynna en hún var marka- og stigahæsti leikmaður Toppdeildar kvenna á síðasta tímabili og allra besti leikmaður deildarinnar síðustu ár. Síðustu tvö tímabili hefur hún verið fyrirliði Fjölnis og leitt þær til Íslandsmeistaratitils í bæði skiptin. Kolbrún snýr nú aftur heim í SA og við bíðum spennt eftir að sjá hana aftur á ísnum í SA treyjunni. Jakob Jóhannesson – markmaður #55 – úr námsleyfi Jakob snýr aftur heim að sunnan eftir að hafa tekið sér árs námsleyfi frá hokkíinu. Jakob var fyrsti markvörður karlalandsliðsins og með bestu markvörslu deildarinnar um nokkurra ára skeið áður en hann fór í leyfið. Jakob er nú snúin heim og mættur í markið og styrkir markvarðateymi liðsins með Róberti Steingrímssyni. Við hlökkum til sjá Jakob koma sér aftur í gírinn og byrja að loka markinu. Arnar Kristjánsson – 20 ára varnarmaður #8 – frá EJ Kassel (Þýskalandi) Arnar Kristjánsson er einn efnilegasti varnarmaður landsins og hefur flakkað á milli þess að spila erlendis og hér heima síðustu ár. Arnar er mjög sóknarsinnaður varnarmaður og er komin með 13 A-landsleiki þrátt fyrir ungan aldur og hefur verið valinn besti varnarmaður heimsmeistaramóta með unglinga- og ungmennalandsliðum Íslands. Arnar mun styrkja varnarlínuna okkar og kemur auk þess með glimrandi sóknarleik sem verður gaman að fylgjast með í vetur.
19.08.2025

Æfingar SA hefjast samkvæmt tímatöflu í næstu viku

Æfingar hjá Skautafélagi Akureyrar eru nú að fara á fullt samkvæmt tímatöflu og er starfsemi allra deilda að taka við sér eftir sumarið. Byrjendaæfingar hefjast samkvæmt tímatöflu í næstu viku. Byrjendaæfingar: Listhlaup: Hefjast mánudaginn 25. ágúst og verða alla mánudaga og miðvikudaga kl. 16:00–17:30. Upplýsingar og skráning: thjalfari@listhlaup.is Íshokkí: Hefjast þriðjudaginn 26. ágúst og verða alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:00–17:45. Upplýsingar og skráning: hockeysmiley@gmail.com Krulla: Hefst í september og verða æfingar auglýstar sérstaklega á heimasíðu krulludeildar. Almenningstímar hefjast í Skautahöllinni fyrstu helgina í september og fyrsta skautadiskó vetrarins verður föstudaginn 1. september. Við hvetjum foreldra, iðkendur og áhugafólk um íþróttirnar til að kynna sér æfingatöflu félagsins og mæta með okkur í skemmtilegt og fjölbreytt ísstarf í vetur.
01.08.2025

Íshokkíæfingabúðir hefjast á þriðjudag

Íshokkíæfingabúðir SA hefjast strax eftir versló  og standa yfir fyrstu 3 vikurnar í ágúst. Skráning í æfingabúðirnar er enn opin og nokkur laus sæti í öllum hópum. Leikmenn fara daglega á svellið, afísæfingar, fræðslustundir og kylfu- og skotæfingar. Frábær undirbúningur fyrir tímabilið þar sem þáttakendur fá miklar framfarir. Skráning á Abler. Sjáumst á ísnum á þriðjudag! 
Allir í stúkuna

Næstu leikir

Engir leikir á skrá

 

myndbrot

SA TV

Á SA TV youtube síðunni eru flest öll mót, leikir og viðburðir sem fara fram í Skautahöllinni á Akureyri sýnd í beinni útsendingu. Þar má finna allt efni einnig aftur í tímann.

SA tv

Lesa meira

Viltu æfa Íshokkí?

 
Byrjendaæfingar fyrir 2018 og yngri kl 17:00 þriðjudaga og fimmtudaga
Allur búnaður á staðnum og öllum velkomið að koma prófa! Bara mæta 30 mín fyrir æfingu.
Eldri árgöngum velkomið að mæta á æfingar og prófa með sínum árgangi en hafið samband við Söruh Smiley - hockeysmiley@gmail.com
Hokkírútan fer af stað í næstu viku og sækir 2015, 2016 og 2017 árganga í alla skóla bæjarins.

Handbók SA - fyrirmyndarfélag

Skautafélag Akureyrar er fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Viltu æfa Listskauta?

Langar þig að æfa?

Það kostar ekkert að koma prófa

Skráning og frekari upplýsingar:

Listskautar: Ingibjörg Magnúsdóttir: formadur@listhlaup.is

UPPLÝSINGAR FYRIR BYRJENDUR (4.HÓP)

 
 
    • Æfingar eru á mánudögum og miðvikudögum kl 16:00-17:15. Æfingarnar hefjast á upphitun afís. Við tökum á móti nýjum iðkendum yfir allan veturinn. Fyrirfram skráning er ekki nauðsynleg, en gott er að láta þjálfara vita. Það er frítt að prufa í eina viku.

    • Æfingafatnaður: Mikilvætt er að æfingafatnaður sé lipur, þægilegur og falli þétt að líkamanum til þess að þjálfari geti séð líkamsstöðu og líkamsbeitingu iðkanda. Kuldagallar, snjóbuxur, gallabuxur, hettupeysur og stórar úlpur er ekki æskilegur æfingafatnaður. Gott er að nota undirbuxur (ullarbuxur, sokkabuxur) og t.d. leggings eða flísbuxur yfir. Það er ekki gott að nota ökklasokka eða ullarsokka, bara venjulega sokka. Ávallt skal nota vettlinga á ísæfingum og vera með hjálm á höfðinu. Gott er að hafa buff eða eyrnaband undir hjálminum. Mikilvægt er að þeir iðkendur sem eru með sítt hár hafi það greitt vel frá andlitinu, með hárið í teygju eða noti buff.

    • Búnaður: Hægt er að fá bæði skauta og hjálma lánaða í skautahöllinni fyrir æfingar

    • Skráning iðkenda og greiðsla æfingagjalda fer fram í gegnum SPORTABLER SHOP kerfið. SPORTABLER er íslenskt vef - og snjallsímaforrit sem einfaldar alla viðburðastjórnun, samskipti og utanumhald íþróttastarfsins. Mikilvægt að allir iðkendur séu tengdir SPORTABLER til að fylgjast með ef það eru breytingar á æfingatíma. Nánari upplýsingar um SPORTABLER kerfi má finna hér

    • facebook síða 4. hóps https://www.facebook.com/groups/230321910761187

    • Nánari upplýsingar: formadur@listhlaup.is

      • Æfingagjöld
             
          Allur veturinn haustönn/vorönn Iðkendagjald ÍSS  
      1.hópur   315.000 kr 170.000 kr 3.500 kr  
      2.hópur   230.000 kr 130.000 kr 3.500 kr  
      3.hópur   165.000 kr 90.000 kr 3.500 kr  
      4.hópur     60.000 kr 3.500 kr  

       

 

Þjálfarar Listskautadeildar
Yfirþjálfari:
Jana Omelinová
Aðrir þjálfarar (aðstoðarþjálfarar hjá 3. og 4. Hóp(byrjendahóp):
Telma Marý Arinbjarnardóttir
Varvara Voronina (dans og byrjendahópur) : thjalfari@listhlaup.is
Kristbjörg Eva Magnadóttir
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir

Frábær aðstaða

Verið velkomin í höllina

Skautasvellið í Skautahöllinni á Akureyri er opið fyrir gesti um helgar. Í skautahöllinni er hægt að fá leigða skauta og hjálma til afnots ásamt skerpingarþjónustu. Veitingarsala er opin á almenningstímum.

 

BÓKANIRAFMÆLIHAFA SAMBAND