Íslandsmótið í krullu - tvö lið á toppinn

Önnur umferð deildarkeppni Íslandsmótsins í krullu fór fram í kvöld. Tvö lið eru taplaus eftir tvær umferðir.

Aðeins tvö lið eru nú taplaus eftir að tvær umferðir hafa verið leiknar á Íslandsmótinu þar sem svo skemmtilega vildi til að sigurliðin í fyrstu umferðinni léku saman í kvöld. Aðeins Mammútar og Skytturnar hafa unnið báða leiki sína til þessa. Bæði liðin lentu þó í baráttuleikjum í annarri umferðinni, Skytturnar unnu Víkinga með eins stigs mun og Mammútar lentu undir á móti Svarta genginu en náðu með nokkurri heppni að snúa leiknum sér í hag og sigra. Riddarar sigruðu Fífurnar en bæði þessi lið töpuðu leikjum sínum í fyrstu umferðinni. Garpar og Üllevål áttu að leika en því miður varð Üllevål að gefa leikinn vegna forfalla. Fjögur lið hafa nú einn vinning, Garpar, Svarta gengið, Riddarar og Víkingar en Üllevål og Fífurnar eru án sigra.

Úrslit 2. uferðar:

 Garpar (185,4) - Üllevål (185,4)
  1-0
 Svarta gengið (163) - Mammútar (60)    5-10
 Fífurnar (154) - Riddarar (185,4)   3-5
 Skytturnar (185,4) - Víkingar (85)
  4-3

Öll úrslit og leikjadagskrá er að finna í excel-skjali hér. Hinn tölfræðióði fréttaritari Krulludeildar hefur tekið sig til og bætt dálítlum talnalegum fróðleik inn í excel-skjalið. Þar má nú finna upplýsingar um það hve mörgum umferðurm hvert lið hefur "stolið". Fyrir þá lesendur sem ekki kannast við það hugtak þá er talað um að stela umferð þegar lið nær að skora án þess að eiga síðasta stein í þeirri umferð. Eins og glöggir lesendur geta séð af úrslitum fyrstu umferðar eru það Víkingar sem hafa forystuna hvað þetta varðar, liðið vann allar umferðirnar gegn Üllevål í fyrstu umferðinni og stal þeim öllum því Üllevål vann "hamarinn" með betra skoti í lok upphitunar.

Einnig eru til gamans teknar saman upplýsingar um skor hvers liðs fyrir sig, þ.e. hve oft liðin skora 1, 2, 3 eða fleiri stig í umferð - og um leið sömu upplýsingar um þau stig sem andstæðingar viðkomandi liðs skora. Vonandi er þetta einhverjum til gamans og/eða gagns.

Þriðja umferð fer fram mánudaginn 1. febrúar en þá eigast við:

Braut 1: Riddarar - Svarta gengið
Braut 2: Víkingar - Fífurnar
Braut 4: Üllevål - Skytturnar
Braut 5: Mammútar - Garpar

Ísumsjón: Mammútar, Üllevål, Skytturnar, Garpar