Karfan er tóm.
Meistaraflokkur karla, SA Víkingar, hefja titilvörnina í Toppdeild karla í dag þegar liðið mætir Fjölni í Egilshöll. Eftirvæntingin er mikil í herbúðum SA en í dag lýkur 4 mánaða undirbúningstímabili leikmanna en hópurinn verið saman í 6 vikur á ís. Nýtt tímabil, nýtt fyrirkomulag og áskoranir með breyttan leikmannahóp – en markmiðið er skýrt: að verja titilinn og koma honum aftur heim til Akureyrar.
Mikil hreyfing hefur orðið á leikmönnum og leikmannahópurinn nokkuð breyttur frá síðasta tímabili. Tveir leikmenn eru farnir erlendis en Gunnar Arason er farin til Hollands og spilar með GIJS Groningen í vetur og Ólafur Baldvin Ólafsson verður hjá Esbjerg í Dönsku 1. deildinni. Björn Már Jakobsson lagði skautana á hilluna eftir 29 tímabil í meistaraflokki og skilur eftir sig stór spor fyrir nýjan aldurskóng. Bræðurnir Ágúst Máni Ágústsson og Bjarmi Ágústsson helga sig bústörfunum og námi á Hvanneyri í vetur og þá hefur liðið einnig misst kanónuna Andra Sverrisson og markmanninn Tyler Szturm frá síðasta tímabili.
Þrátt fyrir þessi skörð er liðið vel mannað og kjarninn sá sami en styrkt á lykilstöðum. Jakob Jóhannesson er komin aftur úr árs námsleyfi og má segja að gamla gengið sé komið aftur. Markvarðateymið með Róberti Steingrímssyni verður feykilega öflugt og yfirvegað í vetur. Varnarmaðurinn Arnar Kristjánsson kemur aftur heim frá EJ Kessel í Þýskalandi og þá hefur liðið samið við Bandarískan varnarmann, Hank Nagel, og Belgískan sóknarmann, Robbe Delport. Fjölmargir ungir og efnilegir leikmenn eru nú að banka all hressilega á dyrnar um að vinna sér sæti í leikmannahópnum í vetur og verður hörð samkeppni um stöðurnar.
Sheldon Reasbeck er á sínu öðru tímabili með liðið en honum tókst að koma Íslandsmeistaratitlinum heim á sínu fyrsta tímabili með liðið. Honum til aðstoðar verða engir aðrir en reynsluboltarnir Björn Már Jakobsson og Ingvar Þór Jónsson. Sheldon leggur áherslu á að nýta reynsluna frá síðasta tímabili en horfa fram á veginn: "Við ætlum að byggja ofan á árangurinn frá síðasta tímabili. Við sættum okkur ekki við að vera fastir í sama farinu heldur höldum áfram að bæta okkur – markmiðið er skýrt, að ná Íslandsmeistaratitli aftur heim til Akureyrar,“ segir hann.
Toppdeild karla tekur breytingum í vetur þar sem ungmennalið SA og Fjölnis fá tækifæri til að spreyta sig gegn meistaraflokkunum í fyrstu umferð. Að henni lokinni skiptist deildin í efri og neðri hluta. Þá verður Skautafélag Hafnarfjarðar ekki með í ár sem er mikill missir, en nokkrir leikmenn SH hafa samið við Skautafélag Reykjavíkur sem hefur bætt við sig þónokkrum sterkum leikmönnum á undanförnum dögum.
Auk deildarkeppninnar verða SA Víkingar með í Evrópukeppninni, Continental Cup, og fá hörkuandstæðinga í fyrstu umferðinni sem leikin er í Vilníus í Litháen um miðjan október.
Leikurinn gegn Fjölni í dag hefst kl. 16:45 og verður í beinni útsendingu á IHI/TV. Fyrsti leikur SA Víkinga á heimavelli er laugardaginn 7. Október gegn SR og mætast þá liðin sem kepptu til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor í fyrsta sinn.
Það er spennandi hokkívetur framundan - ársmiðasalan fer af stað eftir helgina svo fylgist vel með og tryggið ykkur sæti í stúkunni í vetur.
Leikmannahópur SA Víkinga 2025-2026
Staða | Nr | Leikmaður | Aldur | Mfl. Leikir | Stig |
D | #8 | Arnar Helgi Kristjánsson | 20 | 25 | 11 |
D | #43 | Atli Þór Sveinsson | 23 | 55 | 42 |
D | #4 | Dagur Jónasson | 22 | 31 | 13 |
D | #16 | Daníel Ryan | 19 | 22 | 1 |
D | #26 | Elvar Skúlason | 17 | 3 | 0 |
D | #17 | Halldór Skúlason | 25 | 65 | 29 |
D | #44 | Hank Nagel | 25 | ||
D | #18 | Ormur Jónsson | 20 | 64 | 31 |
D | #2 | Orri Blöndal | 34 | *251 | 191 |
F | #19 | Andri Mikaelsson | 34 | *258 | 354 |
F | #15 | Baltasar Hjálmarsson | 22 | 73 | 41 |
F | #14 | Bjarmi Kristjánsson | 18 | 15 | 1 |
F | #23 | Hafþór Sigrúnarson | 28 | 173 | 163 |
F | #6 | Heiðar Jóhannsson | 22 | 75 | 25 |
F | #10 | Jóhann Leifsson | 32 | *257 | 381 |
F | #27 | Marek Vybostok | 20 | 13 | 8 |
F | #96 | Matthías Stefánsson | 27 | 149 | 35 |
F | #11 | Pétur Sigurðsson | 32 | 114 | 22 |
F | #22 | Robbe Delport | 18 | ||
F | #13 | Uni Blöndal | 19 | 44 | 46 |
F | #28 | Unnar Rúnarsson | 22 | 62 | 73 |
G | #55 | Jakob Ernfelt Jóhannesson | 25 | **51 | 0.915% |
G | #35 | Róbert Andri Steingrímsson | 26 | **73 | 0.882% |
* Aðeins tölfræði frá árinu 2010 en í töluna vantar alla leiki og stig fyrir þann tíma | |||||
** Gæti vantar uppá að tölfræðin sé nákvæm |