Víkingar deildarmeistarar!

Björninn felldur. Mynd: Sigurgeir Haraldsson
Björninn felldur. Mynd: Sigurgeir Haraldsson


Víkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni með öruggum sigri á Birninum í dag. Fyrsti leikur í úrslitakeppninni verður á fimmtudagskvöldið kemur.

Einhverjar spár voru uppi um suðaustan rok syðra í dag, en það var ekki venjulegt suðaustan rok, heldur SA-stormur. Og hann var inni. Í Egilshöllinni. Og það var regn með storminum. Markaregn.

Víkingar voru komnir með þriggja marka forystu eftir um tíu mínútna leik og fimm marka forystu um miðjan annan leikhluta. Sjötta mark Víkinga kom í upphafi þriðja leikhluta og það var þá fyrst, þegar 45 mínútur voru liðnar af leiknum, sem heimamönnum tókst, einum fleiri, að brjóta ísinn og skora fyrsta mark sitt. Staðan orðin 1-6 og aðeins stundarfjórðungur eftir. Aftur nýttu Bjarnarmenn sér liðsmuninn nokkrum mínútum síðar og skoruðu annað mark sitt einum fleiri. Staðan orðin 2-6 og tæpar tíu mínútur eftir. Þegar um fimm mínútur lifðu af leiknum skoruðu Bjarnarmenn þriðja mark sitt, en það dugði ekki gegn markasúpu Víkinga úr fyrri hluta leiksins og úrslitin ráðin. Björninn - Víkingar 3-6 (0-3, 0-2, 3-1).

Sjá atvikalýsingu úr leiknum.

Með sigrinum tryggðu Víkingar sér deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni. Víkingar hafa nú 40 stig og eiga eftir leik gegn SR á þriðjudagskvöldið. Björninn hefur lokið sínum leikjum og er með 35 stig.

Mörk/stoðsendingar
Björninn
Ólafur Björnsson 1/2
Hjörtur Björnsson 1/0
Thomas Nielsen 1/0
Falur Guðnason 0/1
Lars Foder 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 36

Víkingar
Stefán Hrafnsson 2/0
Ben DiMarco 1/1
Björn Már Jakobsson 1/1
Ingvar Þór Jónsson 1/1
Jóhann Már Leifsson 1/1
Jón B. Gíslason 0/1
Sigurður Reynisson 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 26

Fyrsti leikur þessara liða í úrslitakeppninni verður því í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið 14. mars. Skv. mótaskrá ÍHÍ á vef sambandsins verður annar leikur liðanna á sunnudag og sá þriðji þriðjudaginn 18. mars. Ef þörf krefur yrði síðan fjórði leikur fimmtudaginn 20. mars og oddaleikur laugardaginn 22. mars.