Víkingar á toppi deildarinnar eftir sigur á Birninum; 5 - 1

Jón Gísla og Einar Sveinn í leiknum í gær.  Myndina tók Elvar Pálsson
Jón Gísla og Einar Sveinn í leiknum í gær. Myndina tók Elvar Pálsson
Í gærkvöldi fór fram skemmtilegur leikur hér í Skautahöllinni á Akureyri þegar Bjarnarmenn komu í heimsókn og mættu Víkingum.  Það var orðið nokkuð langt síðan Víkingarnir spiluðu síðast gegn sunnanliði og því var nokkur spenna í mannskapnum.  Bjarnarmenn voru sjálfum sér líkir, kraftmiklir og vinnusamir en að þessu sinni var það ekki að skila miklu.  Víkingarnir voru hins vegar upp á sitt besta en voru þó lengur að hrista af sér Bjarnarmennina en þeir höfðu gert ráð fyrir.  Björninn var nokkurn veginn með sitt sterkasta lið, þó vantaði þeirra besta varnarmann, Róbert Pálsson sem hefði styrkt vörnina þeirra verulega.  Mættur var þó „gamall“ refur, Daði Örn Heimsson, sem er þeirra lang-elsti leikmaður fæddur 1983, en lítið fór fyrir honum í leiknum.


Víkingarnir voru hins vegar með sitt allra sterkasta lið og voru þéttir allan leikinn.  Fyrsta lota var markalaus en í 2. lotu var það Jóhann Leifsson sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir að hafa stolið pekkinum á miðjunni í „penalty-kill“ og skottast inn að marki með bjarnarvörnina á hælunum og skoraði framhjá Snorra í Bjarnarmarkinu.  Víkingarnir voru enn að dást að markinu þegar Bjarnarmenn jöfnuðu leikinn aðeins mínútu síðar, en sigurmarkið skoraði Andri Sverrisson sem nýtti sér þar liðsmun um einn mann, með aðstoð frá Jóa Leifs og Ingvari Jónssyni.

Þannig stóðu leikar 2 -1 eftir aðra lotu.  Í þriðjulotu voru Víkingarnir í bílstjórasætinu og skorðu þrjú mörk án þess að Bjarnarmenn gætu svarað fyrir sig.  Mörkin skoruðu Jón Gíslason, Sigurður Sigurðsson og Andri Mikaelsson, en sá síðastnefndi skoraði eftir gott gegnumbrot þegar Víkingar voru einum leikmanni færri.  Nokkuð öruggur 5 – 1 sigur í höfn og allt útlit fyrir að Björninn sé skriðinn inn í hýðið sitt þetta árið.  Með þessum sigri komust Víkingar loksins á topp deildarinnar, þar sem þeir eiga að vera.

Mörk/stoðsendingar

Víkingar: Jóhann Már Leifsson ½, Andri Freyr Sverrisson 1/1, Sigurður Sigurðsson 1/0, Andri Már Mikaelsson 1/0, Jón Benedikt Gíslason 1/0, Rúnar F. Rúnarsson 0/1, Björn Már Jakobsson 0/1


Björninn:  Arnar Bragi Ingason 1/0, Einar Sveinn Guðnason 0/1

 

Brottvísanir Víkinga: 10 mínútur 

Brottvísanir Bjarnarins:  18 mínútur

 

Aðaldómarar leiksins tveir að þessu sinni, ( svo kallað "double trouble" kerfi) - en það voru þeir Andri Magnússon og Orri Sigmarsson og stóðu þeir sig með prýði