Vetraríþróttahátíð 2010

Undirbúningur fyrir Vetraríþróttahátíð ÍSÍ 2010 stendur sem hæst en hátíðin fer fram á Akureyri þar sem Vetraríþróttamiðstöð Íslands er staðsett. Hátíðin verður sett laugardaginn 6. febrúar hér í Skautahöllinni með mikilli sýningu þar sem fram koma m.a. hæfileikaríkir iðkendur í listhlaupi en Skautahöllin fagnar einmitt 10 ára afmæli sínu á þessu ári. Ólympíufararnir munu heiðra samkomuna og munu síðan halda utan til Vancouver í Kanada til þátttöku í Vetrarólympíuleikunum.

Vetraríþróttahátíð ÍSÍ stendur dagana  6. febrúar til 21. mars Á dagskrá Vetraríþróttahátíðar ÍSÍ er að finna viðburði sem ná yfir sem flestar greinar þar sem vetraríþróttir eru í aðalhlutverki.

Skautafélagið og Skautahöllin munu taka mikinn þátt í hátíðinni og verða ýmsir viðburðir á vegum félagins sérstaklega í tilefni hátíðarinnar auk þess sem fastir liðir í dagskrá svo sem mót og keppnir munu fara fram undir merkjum hátíðarinnar meðan á henni stendur.

Opnunar- og afmælishátíðin verður mikill viðburður sem hefst á skrúðgöngu fulltrúa þátttökufélaganna inn á ísinn þar sem verða auk gangandi fólks, bæði vélknúin ökutæki og hestar.  Í framhaldinu verða fluttar stutt ávörp áður en formleg kynning á íslensku keppendunum á Ólympíuleikunum fer fram.  Opnunaratriðið sjálf verður svo sýning frá listhlaupadeildinni og við lok hennar verður hátíðin formlega sett.

Veitingar verða svo í boði þar sem 10 ára afmæli Skautahallarinnar verður fagnað og upphafi VH2010.  Áhugamenn um vetraríþróttir og auðvitað allt skautafélagsfólk er hvatt til að mæta í Skautahöllina og gleðjast með okkur.

Strax á eftir opnunarhátíðinni hefst svo leikur í Íslandsmóti karla í íshokkí, þar sem heimamenn taka á móti Skautafélagi Reykjavíkur.