Úrslitaleikur fyrir strákana okkar í fyrramálið

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí sem keppir nú á Heimsmeistaramótinu í Nýja Sjálandi vann 6-3 sigur á Thaílandi í nótt og hefur nú unnið 3 á 4 leikjum sínum í mótinu. Liðið á nú aðeins eftir einn leik en það er úrslitaleikur fyrir liðið en liðið mætir heimaliðinu Nýja Sjálandi í fyrramálið þar sem sigur getur þýtt gull eða silfur. Bæði lið eru með 9 stig eftir 4 leiki en Georgía situr í efsta sætinu með 11 stig fyrir síðasta keppnisdaginn. Ísland er búið að tryggja sér verðlaunasæti í mótinu en með sigri tryggir Ísland sér í minnsta lagi silfur og eigir þá einnig möguleika á gullinu og að fara upp um deild ef Georgía misstígur sig á sama tíma gegn Thaílandi.

Unnar Rúnarson er í þriðja sæti fyrir bæði markahæstu og stigahæstu leikmenn mótsins hingað til en hann hefur skorað 4 mörk og er með 8 stig. Jóhann Már Leifsson og Viggó Hlynsson koma þar næstir og eru báðir með 7 stig.

Leikurinn gegn Nýja-Sjálandi hefst kl. 8:00 á íslenskum tíma, laugardaginn 3. maí en uppselt er á leikinn samkvæmt okkar heimildum. Beint Streymi er frá leiknum í gegnum streymisveitu IIHF.