Ungmennalið SA með frækilega frammistöðu gegn SR

Ungmennalið SA 22 ára var nálægt því að skrifa í sögubækurnar í gærkvöld þegar liðið mæti sterku meistaraflokksliði SR í Laugardal. SA liðið var hársbreidd frá því að stela stigum en SR hafði að lokum betur 4-3 eftir æsispennandi lokamínútur.

Staðan var 1-1 fyrir síðustu lotuna og var síðasta lotan æsispennandi. SR náði forystunni þegar 8 mínútur lifðu leiks og náðu að halda forystu í leiknum en drengirnir okkar börðust svo eins og ljón alveg til leiksloka og gerðu harða atlögu að jafna leikinn en lokatölu 4-3 SR í vil.

Þrátt fyrir tapið má segja að niðurstaðan sé sigur fyrir ungmennaliðið okkar sem er samansett af leikmönnum 20 ára og yngri og allt niður í 16 ára sem stóðu sig eins og hetjur í eldskírninni í meistaraflokki. Liðið fékk örlítinn liðstyrk því Jakobi Jóhannesson sem stóð milli stanganna samkvæmt lánsreglum sem gilda um þessa leiki milli ungmennaliðanna á móti meistaraflokkum og smitaði sinni stóísku yfirvegun í varnarleik liðsins sem var til fyrirmyndar.

Ormur Jónsson var áberandi hjá SA og skoraði fyrstu tvö mörk SA og Aron Ingason bætti svo við því þriðja markinu en rúllað var á 4 línum allan leikinn og voru því allir leikmenn liðsins sem lögðu sitt á vogaskálarnar og geta gengið brattir frá borði. Það er engin vöntun á efnivið í meistaraflokkinn hjá SA eins og staðan er í dag og verður eflaust hart barist um laus sæti í lið SA Víkinga í vetur miðað við frammistöðu margra leikmanna í þessum leik.

Næsta verkefni ungmennaliðið okkar er strax á þriðjudag en þá mætir meistaraflokki Fjölnis á heimavelli í Skautahöllinni á Akureyri kl. 19:30. Það er frítt inn á leikinn og við hvetjum alla til þess að koma og sjá þessa efnilegur drengi að leik og styðja liðið til sigurs.