U18 ára landsliðið heldur til keppni í Mexíkó

Á morgun hefst heimsmeistaramót U18 í 3. deild í Mexíkó og íslenska landsliðið lagði af stað í þetta langa ferðalag í fyrradag.  Keppnin sjálf fer fram í höfuðborginni Mexíkóborg sem er ein stærsta borg í heimi.  Mótherjar Íslands að þessu sinni eru þjóðir sem við erum kunnugir en það eru Írland, Ísrael, S-Afríka auk gestgjafanna sjálfra Mexíkóa.  Karlalandsliði hefur lagt öll þessi lið að velli og yngri landsliðin einnig.  Ef liðið spilar vel á það mjög góða möguleika á þessu móti, verðlaunasæti er lágmarkskrafan og gullið draumurinn.

 

Þó mótið hefjist á morgun hefst keppni ekki hjá íslenska liðinu fyrr en þann 14. eða á öðrum degi keppninnar og fyrsti leikurinn verður gegn Ísrael.  Leikir íslenska liðsins eru annars sem hér segir;

Gegn Ísrael 14.03

Gegn Írlandi 16.03

Gegn S-Afríku 18.03

Gegn Mexíkó 19.03

Það verður mikið ævintýri fyrir strákana spila síðasta leik mótsins gegn heimamönnum, væntanlega fyrir fullri höll.  Það getur verið erfitt að spila í Mexíkóborg sérstaklega fyrir okkur sem búum við sjávarmál því borgin er ein af þeim hæstu í heimi og stendur í 2258m en þess má til gamans geta að hæsti tindur Íslands, Hvannadalshnjúkur er 2.119m.  Loftið er því töluvert þynnra þarna og þar standa heimamenn best að vígi.

 

Við í Skautafélagi Akureyrar eigum fimm fulltrúa í þessu liði, en það eru þeir;

Einar Eyland

Jóhann Leifsson

Ingþór Árnason

Sigurður Reynisson

Ingólfur Elíasson.

Þeim og öllum hinum í liðinu óskum við góðs gengis í komandi átökum.  Fyrir þá sem vilja fylgjast betur með strákunum þá má allar upplýsingar finna á vef Alþjóða Íshokkísambandsins hér og leikirnir verða jafnvel beint á netinu.