Sunna og Unnar íshokkífólk ársins á Íslandi

Sunna Björgvinsdóttir og Unnar Hafberg Rúnarsson hafa verið valin íshokkífólk ársins 2025 af Íshokkísambandi Íslands. Bæði tvö koma frá Skautafélagi Akureyrar, Unnar er leikmaður SA Víkinga en Sunna spilar með Södertalje SK í Svíþjóð.

Afrek þeirra á árinu 2025 tekið af heimasíðu ÍHÍ:

Íshokkímaður ársins 2025 er Unnar Hafberg Rúnarsson, Unnar er 23 ára og hefur verið lykilleikmaður í liði Víkinga Skautafélags Akureyrar og A-landsliði karla. Unnar hefur leikið lengst af hjá Skautafélagi Akureyrar en hann fór ungur að spila í Svíþjóð, þá 16 ára, tímabilið 2018/2019 og síðan með U18 og U20 liðum Sollentuna til ársins 2022 en þá fór hann heim til Akureyrar og hefur spilað þar síðan. Hann hefur leikið í öllum karlalandsliðum Íslands, þ.e.a.s U18, U20 og A-landsliði karla. Hann hefur leikið alls 46 landsleiki með þeim landsliðum. Unnar er jákvæður og skapandi leikmaður sem skilar ávallt góðri frammistöðu. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Á síðasta HM var hann valinn besti leikmaður Íslands á mótinu en hann var einnig sigahæsti leikmaður Íslands, skoraði 6 mörk og átti 4 stoðsendingar. Hægt er að skoða feril Unnars betur á https://www.eliteprospects.com/player/611419/unnar-runarsson

Íshokkíkona ársins 2025 er Sunnar Björgvinsdóttir, Sunna er 25 ára og lék með Skautafélagi Akureyrar um árabil þar til hún flutti til Svíþjóðar árið 2019 og hefur leikið þar með Sodertelje SK, IF Troja-Ljungby, IF Leksands (SDHL) og HV71 (SDHL) með mjög góðum árangri. Hún hefur leikið með kvennalandsliði Íslands síðan 2015, þá 15 ára, og hefur verið fastur leikmaður landsliðsins allar götur síðan. Hún hefur leikið alls 49 leiki fyrir íslands hönd. Sunna er einstaklega jákvæð, góður liðsfélagi og er fyrirmynd margra yngri iðkenda. Sunna er fyrirliði A-landsliðs kvenna og veldur því ábyrgðar hlutverki vel, hvort sem það er í leik eða utan hans. Á síðasta HM var Sunna sigahæsti leikmaður Íslands, skoraði 3 mörk og átti 2 stoðsendingar. Hægt er að skoða feril Sunnu betur á https://www.eliteprospects.com/player/426652/sunna-bjorgvinsdottir

Afhending viðurkenninga verður á Íþróttamanni ársins, sem félag Íþróttafréttamann heldur í samvinnu við ÍSÍ, 3. janúar 2026 í Hörpu.