Suður til sigurs

Okkar fólk gerði góða ferð suður yfir heiðar um helgina en tilgangur ferðarinnar var að safna nokkrum stigum í sarpinn í boði Bjarnarins í Egilshöll. 

Suður fóru kvennaflokkur og 2. flokkur og fyrst voru það konurnar sem stigu á ísinn.  Þær hófu leikinn af miklum krafti og skoruðu 3 mörk á móti 2 Bjarnarkvenna í 1. lotunni en þar voru að verki Jónína Guðbjartsdóttir, Hanna Björg og Smiley.  Smiley bætti svo við 4 marki SA í 2. lotu en fleiri urðu mörkin ekki í leiknum – lokastaðan 4 – 2 og enn hafa stelpurnar ekki tapað leik í vetur.

Mörk og stoðsendingar
Björninn:  Ingibjörg G. Hjartardóttir 1/0, Sigríður Finnbogadóttir 1/0
SA: Sarah Smiley 2/0, Jóhanna Sigurbjörg 1/0, Jónína Guðbjartsdóttir 1/0

Brottvísanir:
Björninn:  2 mín
SA: 6 mín.

2. flokkur hóf leik um kl. 21:00 strákarnir okkar spiluðu vel frá fyrstu mínútu, pressuðu vel og sóttu stíft en ekki vildi pökkurinn inn fyrr enn undir lok 7. mínútu þegar Einar Guðni skoraði eftir sendingu frá Guðmundi Guðmundssyni.  Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós fyrr enn undir lok leiksins en þá tóku okkar menn sig til og settu þrjú, þar af eitt í tómt markið gegn 6 útileikmönnum.

Dómari leiksins var í stuði og dæmdi þrjú víti í leiknum, en ekki vitað til þess að þrjú víti hafi verið dæmd í einum leik hérlendis fyrr.  Markmennirnir voru þó ekki í neinum vandræðum með að afgreiða vítin, Ómar varði tvö fyrir SA og Ingi eitt fyrir Björninn.  Ómar Smári markverja hjá SA lokaði markinu og uppskar “shut-out” sem líkt og vítin er sjaldséður viðburður hér um slóðir.  Ómar Smári hefur með frammistöðu sinni í vetur sýnt og sannað að hann hefur alla burði til að verða sá albesti hérlendis á milli stanganna.

Einar Guðni, Sindri Már og Simmi bættu við þessum þremur mörkum undir lok leiksins og innsigluðu glæsilegan sigur – 4 – 0.  Strákarnir sýndu agaðan leik og að sögn þjálfara þeirra var þetta þeirra besti leikur í vetur.

Mörk og stoðsendingar
Björninn:  engin mörk skoruð
SA:  Einar Guðni Valentine 2/1, Sigmundur Sveinsson 1/0, Sindri Már Björnsson 1/1, Guðmundur Guðmundsson 0/1

Brottvísanir:
Björninn:  12 mín
SA: 16 mín