Styttist í lok framkvæmda við félagsaðstöðu

Vetrarstarfið er komið á fullt hjá félaginu og Skautahöllin iðar af lífi frá morgni til kvölds. Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að miklar framkvæmdir hafa staðið yfir frá því síðasta vetur við nýja félags- og æfingaaðstöðu í höllinni.

Vonir stóðu til þess að hin nýju rými yrði komin í notkun í upphafi tímabils, en líkt og oft vill verða með stórar framkvæmdir þá urðu óhjákvæmilegar tafir sem við tökum með stóískri ró. Núna eru málarar að klára síðustu umferðina og vinna að hefjast við að setja upp húsbúnað í félagsaðstöðunni og tæki og tól í líkamræktar- og æfingaaðstöðuna. Ef allt gengur að óskum verðum við farin að full nýta hinu nýju aðstöðu í lok mánaðarins.

Einnig er á leiðinni nýr skjár í húsið í stað þess sem skemmdist í rafmagnstruflunum í óveðri fyrir rúmu ári síðan, og því bjartir tímar framundan. Við biðjum félagsfólk og gesti að sýna þolinmæði í nokkra daga til viðbótar – góðir hlutir gerast stundum hægt.