Skemmtilegri skautahelgi að ljúka

Það var mikið um að vera hér í Skautahöllinni um helgina og hver klukkustund þaul skipulögð frá 7 á morgnanna til 12 á kvöldin og jafnvel lengur.  Frá fimmtudegi til laugardagskvölds fór fram Minningarmót um Magnús Finnsson en á því móti keppa „heldri“ íshokkíleikmenn frá SA, SR og Birninum.  Fjögur lið tóku þátt og leikirnir voru fjölmargir og m.a. var spilað fram til kl. 01:00 aðfararnótt laugardag. 

Á laugardaginn fór svo fram fyrsti leikurinn í úrslitakeppni kvenna í íshokkí en þar takast á okkar stelpur og Björninn og var leikurinn vel sóttur af áhorfendum sem fylgdust með okkar liði bera sigur úr býtum 3 – 0.

Frá laugardegi til sunnudags fór svo fram Vinamót c-keppenda á vegum Listhlaupadeildar með stuðningi frá Slippstöðinni.  Alls tóku 85 keppendur þátt en mótið fór fram fyrir hádegi bæði á laugardag og sunnudag og heppnaðist í alla staði mjög vel.

Auk alls þess sem hér að ofan er talið fóru fram æfingar á milli viðburða ásamt því sem opið var fyrir almenning alla dagana frá fimmtudegi til sunnudags og því óhætt að segja að Skauthöllin hafi verið vel nýtt yfir helgina.

Keppendum, áhorfendum, stuðningsfólki sem og bæði öðrum gestum og auðvitað iðkendum þökkum við kærlega fyrir skemmtilega skautahelgi.