Sigur í þriðja leik úrslita

Fagnað að hætti hússins.  Myndina tók Ásgrímur Ágústsson
Fagnað að hætti hússins. Myndina tók Ásgrímur Ágústsson

Skautafélag Akureyrar bar sigur úr býtum í þriðju viðureign SA og SR í úrslitakeppninni, sem fram fór í gærkvöldi.  Leikurinn fór fram hér í Skautahöllinni á Akureyri og var vel sóttur af áhorfendum auk þess sem hann var sýndur beint á sjónvarpsstöðinni N4.


Það var að duga eða drepast fyrir SA í þessum leik og liðið stóðst álagið í jöfnum og spennandi leik.  Líkt og í síðasta leik var markaskorun í lágmarki og leiknum lauk með 3 – 2 sigri SA, sama markatala og síðast en nú réttu megin.
Það voru SR-ingar sem hófu leikinn með marki á 8. mínútu þegar bæði lið spiluðu einum leikmanni færri, en þar var á ferðinni Björn Sigurðsson.  SA svaraði fyrir sig með tveimur mörkum með stuttu millibili, það fyrra frá Jóhanni Leifssyni eftir sendingu frá Jóni Gíslasyni og það síðara frá Gunnari Darra Sigurðssyni eftir sendingu frá Steinari Grettissyni.  Leikar stóðu því 2 – 1 eftir fyrstu lotu. 

Í 2. lotu jók Orri Blöndal forystuna í 3 – 1 með fallegu mark sem reyndist sigurmarkið í leiknum.  Þórhallur Viðarsson minkaði muninn fyrir SR í 3 – 2 fyrir lok lotunnar og fleiri urðu mörkin ekki í leiknum, en marktækifærin urðu þó mýmörg.  Markmenn liðanna voru í aðalhlutverki og héldu markaskoruninni niðri.


Þetta var mikilli baráttusigur hjá SA en liðið hefur verið heldur óheppið með veikindi og meiðsli leikmanna í úrslitakeppninni.  Í síðasta leik voru Jón Gísla, Andri Sverris og Ingólfur Elíasson frá vegna veikinda og meiðsla, en í þessum leik var Andri Sverris áfram meiddur og nafni hans Mikaelsson lá heima með flensu.  Í stað Mikaelssonar kom inn í framlínuna Josh Gribben, hann hefur lítið getað spilað með í vetur vegna meiðsla sem hann hlaut í leik með Jötnunum í haust og vorum við í raun búnir að afskrifa hann þetta tímabilið.  Hann harkaði þó allt af sér í gær og þrátt fyrir að hafa ekki náð fyrri styrk, styrkti hann engu að síður framlínuna í fjarveru Andra.


Næsti leikur fer fram í Reykjavík á sunnudaginn kl. 13:15 og verður hann sýndur beint á Rúv.  Leikurinn verður án efa mikil skemmtun enda allt undir hjá báðum liðum.  SR mun leggja áherslu á að klára þetta á heimavelli því þeir vilja alls ekki fara í norður í 5. leik - en einmitt þangað stefnir þessi úrslitakeppni.

Meðfylgjandi mynd tók Ási Ljós af fagnaðarlátum Orra Blöndal, sem skoraði „mark ársins“ skv. mbl.is