Sigur í fyrsta heimaleik Víkinga

Fyrsti heimaleikur SA-Víkinga fór fram á þriðjudagskvöldið síðasta og tók liðið á móti SR-ingum sem mættu borubrattir til leiks eftir sigur á Esju helgina á undan á meðan Víkingar töpuðu í framlengingu fyrir Birninum. SA-Víkingar unnu leikinn í gær 5-3 og eru því efstir í deildinni eftir 2 umferðir.

Það tók Víkinga ekki langan tíma að brjóta á bak aftur varnir SR þar sem Andri Már Mikaelson skoraði fyrsta mark leiksins úr frákasti þegar rétt rúm mínúta var liðin af leiknum og Ben Dimarco fylgdi í kjölfarið með öðru mark einnig úr frákasti rúmlega mínútu seinna, staðan 2-0 eftir tæplega 3 mínútna leik. Víkingar pressuðu stíft framan af þangað til SR-ingar fengu power play er Ingólfur Elíasson var sendur í boxið og svöruðu með marki frá Robbie Sigurdsson.  Leikurinn var í nokkru jafnvægi það sem eftir lifði lotunnar og liðin skiptust á að sækja án þess að koma pekkingum í netið.

Önnur lotan hófst svipað og sú fyrsta endaði en Orri „coast to coast“ Blöndal prjónaði sig í gegnum alla leikmenn SR líkt og í leiknum gegn Birningum en kláraði færið sjálfur að þessu sinni, glæsilegt mark. Víkingar komnir með leikinn í hendur sér en þegar 4 Sekúndur voru eftir af lotunni gerðu Víkingar sig seka um kæruleysi og SR skoruðu mark beint úr uppkasti í varnarsvæði Víkinga og leikurinn aftur í járnum.

Í þriðju lotunni var töluvert um brottrekstra og liðin skiptust á um að sækja en fyrsta mark lotunnar skoraði Ingvar Jónsson eftir frábært upphlaup og setta‘nn á milli fóta Ævars í markinu hjá SR. Sigurður Reynisson skoraði svo fyrir Víkinga mark í Power Play þegar hann stýrði skoti frá Ingvari Jónssyni í netið. Arnþór Bjarnarson minnkaði munin þegar um 6 mínútur voru eftir af leiktímanum en nær komust SR-ingar ekki og Víkingar lönduðu sínum fyrsta sigri í Íslandsmótinu á þessu tímabili. Esjan vann Björninn á sama tíma í Laugardal 10-5 og Víkingar því efstir í deildinni með 4 stig. Víkingar sækja Esjuna heim í Laugardal á laugardaginn komandi og verður spennandi að sjá hvernig nýliðunum gengur gegn okkar mönnum en Esjan teflir væntanlega fram 2 nýjum erlendum leikmönnum um helgina.

Leikurinn var sendur út beint á netinu að venju og er kominn upp á ishokki.tv til áhorfs fyrir áhugasama.