Sigur í 4. leik úrslita

Í gær fór fram 4. leikurinn í úrslitaeinvígi SA og SR í Íslandsmóti karla í íshokkí.  SA gerði sér lítið fyrir og sigraði með tveimur mörkum gegn einu og náði þar með að knýja fram 5. leikinn sem verður hreinn úrslitaleikur. 

Leikurinn fer fram á morgun, þriðjudaginn kl. 19:00 hér í Skauthaöllinni á Akureyri.  Leikurinn í gær mjög spennandi og bar þess greinileg merki að vera mikilvægur úrslitaleikur.  Allt var í járnum fyrstu tvær loturnar en þær urðu báðar markalausar.

Það var ekki fyrr enn í 3. lotu sem hitna fór í kolunum og en fyrsta markið leit dagsins ljós strax á fyrstu sekúndum lotunnar þegar Andri Mikaelsson skoraði í "power play" en fyrstu 10 sek í lotunni var SA einum leikmanni fleiri.  Steinar Páll Veigarsson jafnaði svo leikinn fyrir SR en þá nýttu þeir sér einnig liðsmun sem þá var þeirra megin. 

Sigurmarkið skoraði svo Josh Gribben en það mark reyndist einnig vera "power play" mark en það segir mikið um leikinn að öll mörkin voru skoruð þegar annað liðið var einum fleiri.   Eins og markatölur gefa til kynna voru markmenn beggja liða í aðalhlutverki, þeir Ævar Björnsson hjá bláum og Ómar Skúlason hjá rauðum. 

Leikurinn á morgun verður hreinn úrslitaleikur um hinn eftirsótta Íslandsmeistaratitil sem nú er barist um í 20 skiptið (síðan skipulagt íslandsmót hófst með þremur liðum eða fleiri).   Þetta er jafnframt í 20. skiptið sem SA er í úrslitakeppninni en oftast hafa SR-ingar verið andstæðingarnir þó Björninn hafi nokkrum sinnum komið við sögu í úrslitakeppni.

Á morgun er að duga eða drepast.  SA mætir með fullskipað lið, allir eru ómeiddir og allir eiga nóg eftir fyrir þessa lokabaráttu.  Stuðningur áhorfenda er nauðsynlegur og nú þurfum við að fylla höllina - ÁFRAM SA!!!!