Sigur(ðar)mark á síðustu mínútunni!

Myndir: Ásgrímur Ágústsson (23.11.2013)
Myndir: Ásgrímur Ágústsson (23.11.2013)


Aðra helgina í röð mega SR-ingar bíta í það súra epli að fara heim með tap á bakinu eftir að hafa fengið á sig mark á lokamínútunni. Í kvöld voru það Jötnar sem mættu SR og höfðu sigur, 4-3 í spennandi leik þar sem ýmislegt gekk á.

Jötnar komu gestunum í opna skjöldu í upphafi leiks, skoruðu eftir eina mínútu og bættu svo skömmu síðar við öðru marki. En SR-ingar skoruðu tvö mörk með stuttu millibili seint í fyrsta leikhluta og jöfnuðu leikinn. Í öðrum leikhluta komust Jötnar aftur yfir, en aftur jöfnuðu gestirnir. 

Zamboni-maðurinn í Skautahöllinni á Akureyri sá fram á lengdan vinnudag með framlengingu þegar lítið var eftir og staðan 3-3. Hann gekk að sér reyn(dar)i manni og spurði: "Manstu hvort það á að hefla fyrir framlengingu?" - En hann hafði varla sleppt orðinu þegar sonur þess sem spurður var, Sigurður Reynisson, skoraði fjórða mark Jötna. Þá voru 53 sekúndur eftir af leiknum. 

Minnstu munaði að Adam yrði ekki lengi í Paradís, því eftir að Jötnar höfðu komist í 4-3 og voru einum fleiri á ís misstu þeir pökkinn klaufalega í sókninni og SR-maður komst einn á móti markmanni - en eins og oft áður kom Rett Vossler til bjargar og varði. Tíminn fjaraði út og sigurinn í höfn.

Mikið gekk á í lokin eftir að Jötnar höfðu skorað og eftir átök fengu þeir Sigurður Reynisson úr Jötnum og Guðmundur Þorsteinsson úr SR sendir í sturtu, fengu svokallaðan "Game Misconduct" dóm.

SR-ingar voru óheppnir með ferðaveður í dag, ef svo má segja, því megnið af liðinu kom norður með rútu, en þrír leikmenn ætluðu að koma með flugi en komust ekki.

Jötnar tefldu fram ungum sem öldnum leikmönnum í kvöld, ef svo má segja. Yngstu leikmennirnir eru fæddir 1999, en Siggi Sig og Helgi Gunnlaugs ekki. 

Atvikalýsing (af vef ÍHÍ).

Mörk/stoðsendingar
Jötnar
Stefán Hrafnsson 2/1
Sigurður Reynisson 2/0
Birgir Þorsteinsson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Refsimínútur: 20
Varin skot: 21

SR
Guðmundur Þorsteinsson 1/1
Zdenek Prchaska 1/1
Viktor Örn Svavarsson 1/0
Miroslav Rachansky 0/1
Kári Gunnlaugsson 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 23

Næsti leikur Jötna verður laugardaginn 14. desember þegar þeir fá Húna í heimsókn norður. Sama kvöld mætast kvennalið SA og SR. Næsti leikur Víkinga verður þriðjudaginn 17. desember gegn SR í Skautahöllinni í Laugardal.

Breytingar hafa verið gerðar á mótaskránni og ný mótaskrá er nú aðgengileg á vef ÍHÍ (excel-skjal) - sjá hér.