Karfan er tóm.
Listskautakonan Sædís Heba Guðmundssdóttir og íshokkímaðurinn Unnar Hafberg Rúnarsson hafa verið valin íþróttafólk SA fyrir árið 2025 og voru heiðruð og veitt viðurkenningar af Skautafélagi Akureyrar í gærkvöld. Bæði tvö hafa nú þegar verið valin íþróttafólk sinnar deildar innan félagsins en eru einnig skautakona og íshokkíkarl ársins hjá sínum sérsamböndum, Skautasambandi Íslands og Íshokkísambandi Íslands. Bæði tvö eru tilnefnd af Skautafélagi Akureyrar til Íþróttafólks Akureyrar fyrir árið 2025 en valið verður kunngjört á íþróttahátið Akureyrar 29. janúar næstkomandi í menningarhúsinu Hofi.
Sædís Heba er fremsti íslenski skautarinn í Junior flokki sem hún hefur sýnt og sannað með frammistöðu sinni bæði innan- og utanlands á árinu 2025. Sædís hóf tímabilið á European Youth Olympic Festival (EYOF) í Batumi í Georgíu, þar sem hún endaði í 23.sæti með 102.91 stig af um 30 keppendum. Í mars tók Sædís þátt í Sonja Heine Trophy í Osló og fékk hún 109.38 heildarstig og 13. sætið af 29. Sædís lauk síðan keppnistímabilinu 2024-2025 á Vormóti ÍSS á Akureyri með persónulegum stigametum þar sem hún fékk 44,55 stig í stuttu prógrammi, 74,37 stig fyrir frjálst prógram og 118,92 stig í heildina. Sædís var fulltrúi Íslands á báðum Junior Grand Prix (JGP) mótaröðum á tímabilinu 2025-2026, en þetta er hæðsta mótaröð sem listskautara komast á og fær Ísland aðeins einu sæti úthlutað á tveimur mótum af sjö og er einskonar undanfari heimsmeistaramóts. Innanlands keppti Sædís á haustmótinu í Laugardal í lok september þar sem hún hlaut 113.13 stig og 1.sætið. Í lok október keppti hún á Northern Lights Trophy í Egilshöll og endaði naumlega í fjórða sætinu með 103,53 heildarstig. Með þessum árangri vann hún sér inn 73 stig sem skila henni inn á heimslista fyrir Junior Women í 176 sætið (ISU World Standings - 2025/26 Jr Women).
Sædís er frábær íþróttakona sem setur fordæmi fyrir annað íþróttafólk félagsins með sínum metnaði, einbeitingu og mikilli þrautseigju.
Unnar Rúnarson átti heldur betur eftirminnilegt ár árið 2025. Unnar sem hefur verið lykilleikmaður í liði Víkinga Skautafélags Akureyrar undanfarin ár varð deildar- og Íslandsmeistari með liðinu á síðasta tímabili. Unnar var á meðal stigahæstu leikmanna SA á tímabilinu var stigahæsti leikmaður úrslitakeppninna með 7 stig og 5 mörk í 4 leikjum. Unnar lék með karlalandsliði Íslands á HM í deild 2b í Nýja-Sjálandi í apríl og var þar stigahæsti leikmaður Ísland með 6 mörk og 4 stoðsendingar. Unnar var 5. stigahæsti leikmaður mótsins og var valinn besti leikmaður Íslands á mótinu. Unnar tók þátt í Continental Cup í haust með SA Víkingum þar sem liðið vann meðal annars frækinn sigur á Eistnesku meisturunum en Unnar var stigahæsti leikmaður SA í keppninni.
Unnar er frábær íþróttmaður og leikmaður sem unnun er að fylgjast með. Unnar er flott fyrirmynd fyrir annað íþróttafólk félagsins sem íþróttamaður sem leggur ávallt allt í sölurnar fyrir liðið og félagið.
Sædís og Unnar eru einstaklega vel að þessum titlum komin og við óskum þeim til hamingju með nafnbæturnar.


