SA vann Björninn 5 - 4 í framlengingu

 

Á laugardagskvöldið spilaði Skautafélag Akureyrar í Egilshöll sinn fyrsta leik í meistaraflokki í vetur.  SA renndi frekar blint í sjóinn hvað varðar þennan leik því hópurinn var frekar þunnskipaður en í heildina taldi hópurinn 15 leikmenn með tveimur markmönnum.  Aðeins fjórir leikmenn voru eldri en tvítugir og þrír leikmenn aðeins 15 ára gamlir.  Þetta var sömuleiðis fyrsti leikur SA í langan tíma án erlendra spilara og fyrsti leikur Sveins Björnssonar sem aðalþjálfara.

 

Í fyrstu línu voru í framlínunni Guðmundur Guðmundsson, Jón Gíslason og Sigurður Óli Árnason, í vörn voru Birkir Árnason og Elmar Magnússon.  Í annarri línu voru frammi Einar Valentine, Sigurður Sigurðsson og Helgi Gunnlaugsson og í vörn voru þeir Björn Jakobsson og Orri Blöndal.  Ómar Smári Skúlason byrjaði í markinu og stóð allan tímann.  Jón Þór, Andri Mikaels og Kristján Eldjárn byrjuðu á bekknum en fengu fljótt að spreyta sig vegna meiðsla og villuvandræða.

 

Leikurinn hófst af töluverðum krafti en strax á 4. mínútu fékk Einar Guðni, Guðmund Ingólfsson varnarmann Bjarnarins í fangið með þeim afleiðingum að hann þurftu að bregða sér á spítalann og láta sauma nokkur spor.  Fyrsta mark leiksins skoraði svo Bjarnarmaðurinn Brynjar Þórðarson á 8. mínútu en Jón Gíslason jafnaði leikinn á 13. mínútu eftir varnarmistök gestgjafanna, stakk sér í gegn tróð pekkinum fram hjá hinum Finnska Ala-Lathi.  Staðan hélst 1-1 fram til loka lotunnar en SA-liðið mætti eitthvað utangátta í 2. lotu og leyfðu Bjarnarmönnum að fara sínu fram.  Sergei Zak var þar að öðrum ólöstum líkt og hann væri með rakettu í rassgatinu og fór oft á tíðum svo illa með okkar menn að engu líkara var en þeir væru boltaðir fastir við ísinn á meðan hann skautaði í gegnum allt liðið. 

 

Ef ekki hefði verið fyrir stjörnuleik Ómars Smára í markinu hefðum við verið skildir eftir þarna snemma í 2. lotu, en Sergei og Daði Heimisson komu Bjarnarmönnum í 3 – 1 og útlitið ekki bjart.  Á 14. mínútu lotunnar lentu svo Bjarnarmenn í brottvísunarvandræðum og fengu 5 2ja mínútna brottvísanir frá 14. – 19. mínútu lotunnar sem SA liðið nýtti sér vel og skoraði þrjú mörk og skyndilega var staðan orðin 4 – 3.   Fyrsta markið kom þegar SA var í 5 á 3 powerplay-i og þá skoraði Sigurður Sigurðsson á fjærstöng eftir fasta sendingu af bláu línunni frá Birni Jakobssyni og Jóni.   Skömmu síðar bætti Helgi Gunnlaugsson við öðru marki í 5 á 4 poweplay-i eftir sendingu frá  Sigurði Sigurðssyni þegar hann stýrði pekkingum af markteigslínunni beint úr sendingu og upp í skeytin.  Þriðja markið átti svo Jón Gíslason einnig eftir sendingu frá Sigurði í öðru 5 á 3 powerplay-inu á stuttum tíma.  Staðan var því orðin 4 – 3 fyrir SA eftir aðra lotu.
 
Hart var barist í 3. leikhluta og SA ætlaði fyrst og fremst að halda sínum hlut en í stað þess að spila af skynsemi lenti liðið í brottrekstrarvandræðum og frá 5. mínútu til loka venjulegs leiktíma sat alltaf a.m.k. einn rauður í refsiboxinu.  Sigurður Sigurðsson fékk 2+10 fyrir “grófan leik” og á 56. mínútu leiksins spólaði Birkir Árnason sig út úr leiknum ásamt Viktori Höskuldssyni.

 

En það var einmitt á 56. mínútu að Guðmundur Ingólfsson jafnaði metin fyrir gestgjafana með skoti frá bláu línunni í gegnum traffík án þess að Ómar Smári kæmi nokkrum vörnum við.  Leiktíminn leið og þar sem um jafntefli var að ræða voru spilaður 10 mínútna bráðabani um aukastigið.

 

Í bráðabananum fengu bæði lið nokkur gullintækifæri til að skora gullmarkið en markmennirnir voru funheitir og héldu leiknum gangandi.  Það hjálpaði okkur SA-ingum heilmikið í framlengingunni að vera lausir við Sergei Zak en hann var í refsiboxinu alla framlenginguna eftir að hafa fengið 2+10 á 57. mínútu venjulegs leiktíma.

 

Það var svo á 7. mínútu bráðabanans að Guðmundur Guðmundsson brunaði upp vinstri kantinn og sendi fyrir á Sigurð Óla Árnason sem þakkaði fyrir sig með því að setja pökkinn upp í vinkilinn framhjá Ala-Lathi og skaut í leiðinni vatnsbrúsann af netinu.  Fyrsta mark hins 15 ára gamla Sigurðar í meistaraflokki og tímasetningin gat ekki verið betri.

 

Þetta var ekki ónýt byrjun hjá liðinu sem enn á mikið inni.  Næsta viðureign verður gegn Skautafélagi Reykjavíkur eftir þrjár vikur og næsta víst að þar verður við ramman reip að draga.  Þeir eru með sterkan hóp íslenskra leikmanna auk hins tékkneska Mireks og svo segir sagan að þar séu einhverjir kanadískir leikmenn einnig.  Í lið SA eiga eftir að bætast við Jón Ingi Hallgrímsson, Elvar Jónsteinsson og Steinar Grettisson svo ekki sé minnst á Den danske Lurk.


 
Mörk / stoðsendingar
Björninn:  Hrólfur Gíslason 0/2, Guðmundur Ingólfsson 1/1, Sergei Zak 1/0, Brynjar Þórðarson 1/0, Daði Örn Heimisson 1/0
SA:  Jón Gíslason 2/1, Sigurður Sigurðsson 1/1, Helgi Gunnlaugsson 1/0, Sigurður Óli Árnason 1/0, Björn Jakobsson 0/1, Guðmundur Guðmundsson 0/1.
 
Brottrekstrar
SA:  68 mín þar af einn leikdómur (5+20) vegna slagsmála
Björninn:  55mín þar af einn leikdómur (5+20) vegna slagsmála
 
Aðaldómari:  Helgi Páll Þórisson