SA heldur toppsætinu eftir sigur í kvöld

Fyrir stundu lauk leik SA og SR hér í Skautahöllinni á Akureyri með sigri heimamanna 6 – 3. SA náði undirtökunum snemma í leiknum og hélt þeim til leiksloka og var þar fyrst og fremst fyrir að þakka skilvirkum leik í power play hjá 1. línu liðsins en öll mörkin að einu undanskildu komu þegar SA var einum leikmanni fleiri á ísnum.

Það var Jón Gíslason sem opnaði reikninginn fyrir SA strax á 4. mínútu eftir sendingar frá Josh Gribben og Stefáni Hrafnssyni .  Aðeins mínútu síðar jafnaði Akureyringurinn Arnþór Bjaranson leikinn fyrir SR með mögnuðu marki frá hliðarlínunni upp í þaknetið framhjá Ómari Skúlasyni í markinu.  Skömmu síðar náði Josh Gribben forystunni fyrir SA eftir sendingar frá Sigurði Árnasyni og Stefáni Hrafnssyni.  Í næstu skiptingu á eftir og á sömu mínútu bætti Sigurður Sigurðsson við 3. markinu eftir sendingu frá Sindra Björnssyni en þetta reyndist eina mark SA með bæði lið fullmönnuð á ísnum.  Josh var svo aftur á ferðinni á 10. mínútu og breytti stöðunni í 4 - 1 en Gunnlaugur Björnsson í marki SR var heillum horfinn og var skipt útaf og sýndi óánægu sína með því að fleygja kylfunni næstum því í gegnum útvegginn.  Inná kom hinn ungi og efnilegi Ævar Björnsson (litli bróðir Sindra í SA) og við það jafnaðist leikurinn nokkuð.


Fleiri urðu mörkin ekki í lotunni og SA fór í fyrra leikhlé með þægilega 3ja marka forystu.  Í 2 lotu var meira jafnræði með liðunum en engu að síður var aldrei nein veruleg hætta á ferðum við mark SA.  Bæði lið náðu að setja eitt mark, Steinar Grettisson fyrir SA og Arnþór Bjarnason fyrir SR.


Sömu sögu má segja um 3. lotu – sigurinn var aldrei í hættu.  Stefán Hrafnsson skoraði 6. og síðasta mark SA þegar um 3 mínútur voru til leiksloka en Arnþór Bjarnason fullkomnaði þrennuna sína á síðustu mínútu leiksins og minnkaði muninn í 6 – 3 og þannig stóðu leikar þegar lokaflautan gall.


Helsti munurinn á liðunum er varnarleikurinn en SA hefur í sínum röðum flesta bestu varnarmenn landsins s.s. Ingvar Þór Jónsson, Björn Jakobsson, Sigurð Árnason, Orra Blöndal auk Josh Gribben.  Á sama tíma er vörn SR þeirra veikasti hlekkur en liðið varð fyrir mikilli blóðtöku þegar Kári Valsson hengdi upp skautana eftir síðasta tíma auk þess sem Þórhallur Viðarsson hefur ekki spilað alla leiki í vetur.
SA liðið er fyrnasterkt um þessar mundir og til alls líklegt í vetur.  Liðið er á toppi deildarinnar og stefnan er tekin á að vera þar sem eftir lifir tímabils.

 

Mörk og Stoðsendingar
SA:  Josh Gribben 2/3, Stefán Hrafnsson 1/2, Jón Gíslason 1/1, Steinar Grettisson 1/1, Sigurður Sigurðsson 1/0, Sindri Björnsson 0/1, Sigurður Árnason 0/1.

SR:  Arnþór Bjarnason 3/0, Daniel Kolar 0/2

Brottvísanir
SA:
  14 mín
SR:  22 mín


Aðaldómar var Andri Magnússon og honum til fulltingis voru Michal Kobezda og Dúi Ólafsson