SA deildarmeistarar eftir góðan sigur á SR

Síðasti leikur SA í undankeppninni fór fram á laugardaginn þegar liðið bar sigurorð af SR með 5 mörkum gegn 4 og tryggði sér með því deildarmeistaratitilinn og heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst í næstu viku.  SR og Björninn munu eigast við á morgun í úrslitaleik um hitt sætið í úrslitakeppninni.  Leikurinn var jafn og skemmtlegur en það var Lurkurinn Rúnar Rúnarsson sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir góða sendingu frá Steinari Grettissyni, en SR-ingar jöfnuðu skömmu síðar en mörkin urðu ekki fleiri í lotunni.

Í 2. lotu skoruðu bæðið lið eitt mark, Jón Gísla fyrir SA og Daniel Kolar fyrir SR.  Þriðja lota var lotan sem skar úr um úrslitin en SA fór vel af stað og skoraði tvö mörk með stuttu millibili og náði 2ja marka forystu.  Fyrra markið átti Josh Gribben og það seinna átti Rúnar Rúnarsson eftir góða sendingu frá Gribben.  Þetta var þægilegt tveggja marka forysta í upphafi lotunnar og allt kapp lagt á að halda fengnum hlut.  Egill Þormóðsson var okkur þó erfiður á endasprettinum og skoraði tvö mörk, en það var hinn ungi Jóhann Leifsson sem skoraði sigurmarkið, eftir gott gegnumbrot, og laumaði pekkinum aftur fyrir Ævar í markinu.

Það er gott veganesti inn í úrslit að sigra tvo síðustu leiki undankeppninnar, en nokkur stígandi hefur verið í liðinu að undanförnu og stefnan sett á að toppa í úrslitunum.  Vörnin var góð í leiknum, þrátt fyrir að aðeins var spilað á fjórum varnarmönnum.  Þar af eru tveir að spila sitt fyrsta alvöru tímabil í meistaraflokki, þeir Hilmar Leifsson og Ingólfur Elíasson.  Aðrir í vörninni voru Josh og Björn Jakobsson, en Ingvar og Sigurður Árnason eru meiddir.

Þegar Reykjavíkurliðin mætast á morgun eru SR-ingar í vænlegri stöðu, en svo virðist sem Björninn þurfi að vinna með fjórum mörkum til að krækja í sæti.  Það verður erfitt en ekkert er ómögulegt í hokkíinu.