SA byrjar á sigri

Rétt í þessu var  að ljúka fyrsta leik Íslandsmótsins í íshokkí hér í Skautahöllinni á Akureyri.  Grafarvogsbjörninn sótti okkur heim og stillti upp ágætis blöndu af ungum leikmönnum og aðeins yngri leikmönnum.  Björninn er með sambærilegt lið og í fyrra en styrktu sig verulega með nýjum markmanni, en í sumarlok gekk til liðs við þá hinn sænskættaði Íslendingur Dennis Hedström sem gerði garðinn frægan með íslenska landsliðinu í Ástralíu síðasta vor.

 

Það er ekki orðum aukið að segja að Hedström hafi verið helmingurinn af liðinu, því auk þess að sjá alfarið um markvörsluna tók hann einnig að sér stærstan hluta varnarleiksins.  Skotin í leiknum skiptust þannig að SA skaut alls 51 sinnum á markið á móti 15 skotum frá Birninum og í síðustu lotunni var skothlutfallið 27 á móti 4 – óhætt að segja að Hedström hafi þar verið uppteknari en einfættur maður í rassasparkskeppni.

 

Leikurinn var af þessum sökum býsna spennandi frá upphafi til enda en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 9. mínútu þegar SA var í “powerplay” 5 á 3.  Það var Helgi Gunnlaugsson sem skoraði með fínu skoti eftir að pökkurinn hafði borist til hans beint úr uppkasti í varnarsvæði Bjarnarmanna.  4 mínútum síðar jafnaði Birgir Hansen leikinn og svo skömmu eftir það náði Einar Guðnason forystunni fyrir gestina eftir sendingu frá Carli Árnasyni. 

 

Þannig stóðu leikar eftir 1. lotu og einnig eftir 2. lotu þar sem hvorugu liðinu tókst að skora.

 

Í 3. lotu bættu SA menn verulega í líkt og skothlutfallið 27 á móti 4 segir til um.  Á 5. mínútu lotunnar þegar SA var í “powerplay” tókst Steinari Grettissyni að troða gúmmíinu framhjá Dennis Hedström og jafnaði metin eftir sendingu frá Stefáni Hrafnssyni.  Nokkrum mínútum síðar skoraði svo Stefán Hrafnsson sjálfur “geimvinnerinn” með aðstoð Jóns Gíslasonar nýkjörins fyrirliða liðsins.

 

Það var svo 20 sekúndum fyrir leikslok að Hilmar Leifsson skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki eftir sendingu frá Sigurði Sigurðssyni.  Lokastaðan því 4 – 2 SA í vil og fyrstu stig liðsins á leiðinni að Íslandsmeistaratitlinum í höfn.

 

Mörk og stoðsendingar

SA:  Stefán Hrafnsson 1/1, Sigurður Sigurðsson 0/2, Hilmar Leifsson 1/0, Steinar Grettisson 1/0, Helgi Gunnlaugsson 1/0, Jón Gíslason 0/1

Björninn:  Birgir Hansen 1/0, Einar Guðnason 1/0, Carl Árnason 0/1

 

Brottvísanir:

SA: 30mín og þar af átti Helgi leCunt 24mín

Björninn:  20 mín

Aðaldómari var Andri Magnússon og á línunni voru Lenni og Mike.