Ósigrar á heimavelli

Ævar stóð sig vel í marki SR.  Mynd Sigurgeir Haraldsson
Ævar stóð sig vel í marki SR. Mynd Sigurgeir Haraldsson
Það gekk hvorki né rak hjá SA liðum í gær.  Fyrri leikur dagsins var SA - SR í karlaflokki og spenna var í þeim leik fram til loka 2. lotu þrátt fyrir að gestirnir hafi verið skrefinu á undan allan leikinn.  Í þriðju lotunni rákumst við hins vegar á vegg og lokastaðan varð 8 - 4 þeim sunnlensku í vil.  Þar með lauk mikilli þurrkatíð hjá SR og óhætt að segja að mikill viðsnúningur hafi orðið í þessari viðureign frá þeirri síðurstu er við unnum 6 - 0 hér á heimavelli.  En svona er hokkíið, allt getur gerst.

Með þessu tapi eru vonir okkar um afslappaða lokaumferð runnin út í sandinn og nú er komin upp allt eða ekkert staða.  Nú eiga öll lið eftir tvo leiki, SA og SR eru með 22 stig og Björninn með 19.  Mörk SA skoruðu Jón Gíslason, Jóhann Leifsson og Rúnar Rúnarsson með tvö.

Seinni leikur kvöldsins var á milli yngra liðs SA í kvennaflokki gegn kvennaliði Bjarnarins.  Það er skemmst frá því að segja að okkar stelpur sáu aldrei til sólar í leiknum og urðu að sætta sig við 9 - 1 ósigur.  Það er huggun harmi gegn að þetta er mikilvæg reynsla fyrir þessar ungu stelpur og þær munu fyrr en síðar velgja þeim sunnlensku enn frekar undir uggum.