Orðsending frá Evrópumótsförum

Lið Íslands á Evrópumótinu í krullu 2009, frá vinstri: Jón Ingi Sigurðsson, fyrirliði, Ólafur Númaso…
Lið Íslands á Evrópumótinu í krullu 2009, frá vinstri: Jón Ingi Sigurðsson, fyrirliði, Ólafur Númason, Jens Kristinn Gíslason, Haraldur Ingólfsson og Sveinn H. Steingrímsson.
Liðið sem fer á Evrópumótið í Aberdeen eftir tæpa viku býður krullufólki og öðrum að heita á liðið eftir árangri.

Liðið leitar nú eftir stuðningi krullufólks og annarra sem hafa áhuga á að heita á liðsmenn eftir árangri. Liðið leikur alls níu leiki í 2. riðli B-flokks.

Þeir sem áhuga hafa á að heita á liðið geta gefið upp ákveðna upphæð fyrir hvern unninn leik í mótinu, hverja unna umferð eða hvern skoraðan stein - allt eftir því sem hver og einn velur. Fyrirfram er mjög erfitt að segja til um möguleika liðsins, þ.e. hvort það nær að vinna leik, hve margar umferðir það vinnur eða hve marga steina það skorar í mótinu. Til gamans má til dæmis geta þess að þegar lið héðan tók þátt í Evrópumótinu í krullu í Füssen í Þýskalandi 2007 vann liðið 14 umferðir og skoraði 16 steina í sex leikjum.

Liðsmenn verða með áheitablað með sér á æfingu miðvikudagskvöldið 25. nóvember og í lokaumferð Gimli Cup mánudagskvöldið 30. nóvember. Áhugasamir geta einnig haft samband við Ólaf Númason - olinuma@geimstofan.is - 867 5111 - og gefið upp hverju viðkomandi vill heita á liðið.

Að sjálfsögðu eru frjáls framlög einnig vel þegin burtséð frá árangri liðsins. Liðið notar reikning í nafni Skautafélagsins, kt. 590269-2989, reikningur 0162-05-267888. Einnig nýtir liðið reikning í eigu eins liðsmannsins til að greiða þann kostnað sem til fellur, kt. 280663-2639, 1145-26-2777.