Opnunar- og afmælishátíð heppnaðist vel

Margt var um manninn.  Ljósm. Sigurgeir Haraldsson
Margt var um manninn. Ljósm. Sigurgeir Haraldsson

Í gær fór fram hér í Skautahöllinni Opnunarhátíð Vetraríþróttahátíðar 2010 og 10 ára afmælishátíð Skautahallarinnar.  Mikið var um dýrðir og mikill fjöldi fólks lagði leið sína í skautahöllina að þessu tilefni.  Opnunaratriðið hátíðarinnar var skemmtileg skrúðganga inn á ísinn þar sem fulltrúar vetraríþrótta í bænum fylktu liði og báru sína félagsfána undir taktföstu lófaklappi áhorfenda.  Auk gangandi fólks þá voru einnig vélsleðar, vélhjól, hestar og já einn bíll.

Í framhaldi af skrúðgöngunni fluttu forseti ÍSÍ, Formaður ÍBA, formaður Íþróttaráðs og bæjarstjóri stutt ávörp, en sá síðastnefndi setti hátíðina með formlegum hætti.  Eftir ávörpin fóru allir af ísnum og við tók kynning íslensku Ólympíufaranna og færðar gjafir og blóm.  Af því tilefni var sett upp stórt tjald þar sem myndum frá afrekum þeirra var varpað en þess á milli voru þar sýndar myndir frá sögu Skautafélagsins og byggingu skautahallarinarar.

Rúsínan í pylsuendanum var svo sýning listhlaupadeildar undir stjórn þeirra Clarke systra Helgu og Audrey, sem fönguðu óskipta athygli áhorfenda.  Því næst var boðið upp á kaffi og kökur en auk þeirra veitinga höfðu gestir fengið við upphaf dagskrár góðgæti í boði Goða, Friðriks V og Vífilfells. 

Dagskráin heppnaðist í alla staði mjög vel og voru eitthvað á áttunda hundrað gesta þegar mest var í skautahöllinni og er það virkilega ánægjulegt að taka á móti öllum þessum fjölda á þessum merku tímamótum.  En þetta var aðeins opnun á hátíð sem standa mun hér á Akureyri fram til 21. mars og munum við í Skautafélaginu taka mikinn þátt í hátíðnni með fjölmörgum uppákomum.