Okkar menn á leið á EM

Garpar: Kristján, Hallgrímur, Ólafur, Árni.
Garpar: Kristján, Hallgrímur, Ólafur, Árni.


Garpar, Íslandsmeistararnir í krullu, halda til Danmerkur í dag og taka þátt í C-keppni Evrópumótsins í krullu fyrir Íslands hönd. Þetta er í sjötta sinn sem krullulið frá SA fer á Evrópumótið.

Íslendingar hafa tekið þátt í Evrópukeppninni á hverju ári frá 2007 utan einu sinni, en hætt var við þátttöku haustið 2008 af skiljanlegum ástæðum. Íslandsmeistarar hverju sinni ávinna sér rétt til þátttöku á EM fyrir Íslands hönd. Það eru Garpar frá Akureyri sem unnu Íslandsmeistaratitilinn fyrr á þessu ári og fara þeir til Danmerkur í dag (sunnudag). Mánudagurinn 7. október er æfingadagur liðanna í keppnishöllinni og síðan hefst keppnin á þriðjudag. Liðið leikur alls sjö leiki, tvo leiki á dag fyrstu þrjá dagana og síðan einn á föstudaginn.

Liðsmenn Garpa eru: Hallgrímur Valsson, fyrirliði, Árni Grétar Árnason, Kristján Bjarnason og Ólafur Hreinsson. Þetta er í annað sinn sem þessir sömu leikmenn taka þátt í EM, en þeir voru einnig fulltrúar Íslands á EM 2011 á sama stað.

Fyrirfram má búast við því að Wales og Írland verði með sterkustu liðin í C-keppninni, en liðin hafa bæði átt sæti í B-keppni og A-keppni Evrópumótsins. 

Leikjadagskrá Íslenska liðsins (staðartímar):
Þriðjudagur 8. október kl. 8.00: Ísland – Hvíta-Rússland
Þriðjudagur 8. október kl. 16.00: Ísland – Lúxemborg
Miðvikudagur 9. október kl. 9.00: Ísland – Wales
Miðvikudagur 9. október kl. 19.00: Ísland – Serbía
Fimmtudagur 10. október kl. 12.00: Ísland – Slóvenía
Fimmtudagur 10. október kl. 20.00: Ísland – Rúmenía
Föstudagur 11. október kl. 13.00: Ísland – Írland
Úrslitaleikir verða síðan á laugardag.

Heimasíða mótshaldara: http://www.eccc-2013.com/.