Nýársmót Krulludeildar - upphitun fyrir Íslandsmótið

Nýársmót Krulludeildar hefst miðvikudagskvöldið 5. janúar.

Mótið fer fram núna í janúar og verður með „frjálslegu“ sniði, að hluta til í sama anda og nýafstaðið Aðventumót, og er í raun bæði opið liðum og einstaklingum. Lögð er áhersla á að þau lið sem ætla að taka þátt í Íslandsmótinu fá tækifæri til að leika sem slík í þessu móti, svona rétt til að hita sig upp fyrir Íslandsmótið. Aðrir sem mæta til leiks hverju sinni geta einnig tekið þátt því þeir verða dregnir saman í lið – þannig fá til dæmis varamenn í liðunum tækifæri ef allir fimm menn einhvers liðs mæta sama kvöldið, sem og ef færri en þrír liðsmenn mæta úr einhverju liðanna. Það er því ekki þörf á að skrá lið eða einstaklinga til leiks fyrirfram. Nóg er að mæta á staðinn tímanlega fyrir hverja umferð. Með þessu er heldur enginn bundinn af því að mæta í allar umferðir mótsins.

Leikdagar verða:

  • Miðvikudagur 5. janúar
  • Mánudagur 10. janúar
  • Miðvikudagur 12. janúar
  • Mánudagur 17. janúar
  • Miðvikudagur 19. janúar
  • Mánudagur 24. janúar

Hugsanlegt er að eitt laugardagskvöld verði nýtt til að leika umferð í mótinu - það á eftir að koma í ljós.

Leikirnir eru sex umferðir og er jafntefli leyft.

Að lokinni upphitun tekur lið skot að miðju til að skera úr um hvort liðið hefur val um síðasta stein. Mælingin hefur ekki þýðingu að öðru leyti.

Stigagjöf verður með sama hætti og í Aðventumótinu, þ.e. hver leikmaður fær 10 stig fyrir sigur eða 5 stig fyrir jafntefli, og síðan 2 stig fyrir hverja umferð sem lið hans vinnur og 1 stig fyrir hvern stein sem lið hans skorar.

Að loknu mótinu er tekið meðaltal stiga hvers leikmanns, en þó þarf leikmaður að hafa leikið að minnsta kosti fjóra leiki af sex til að eiga möguleika á að vinna mótið. Þannig geta reyndar fjórir leikmenn sama liðs endað efstir með sama fjölda stiga, þ.e. ef þeir spila alltaf allir saman. Þeir eru þá (sem lið) einfaldlega sigurvegarar mótsins. Hins vegar er líka mögulegt að einhver einn (eða fleiri) leikmenn úr sama eða mismunandi liðum endi jafnir í efsta sætinu.

Sem sagt: Engin þörf á að skrá sig, nóg að mæta tímanlega miðvikudagskvöldið 5. janúar (eða önnur keppniskvöld), framhaldið ræðst svo af mæringu hverju sinni.