Karfan er tóm.
Í dag var borinn til grafar Innbæingurinn Jón Björnsson, heiðursfélagi í Skautafélagi Akureyrar. Jón, eða Nonni Björns eins og við flest þekkjum hann, ólst upp í Innbænum, í Aðalstræti 54 og fór snemma að renna sér á skautum og spila íshokkí líkt og bræður hans, Hermann, Davíð og Héðinn. Nonni varð fljótt mikill Skautafélagsmaður og lagði mikla vinnu í félagið og uppbyggingu þess og var formaður félagsins fyrst á árunum 1976 – 1979 og svo aftur 1994 – 1996. Framlag hans til félagsins var margþætt en auk þess að standa að uppbyggingu skautasvæðanna spilaði hann íshokkí, tók að sér þjálfun og dómgæslu. Fyrir óeigingjarnt framlag sitt var Nonni gerður að heiðursfélaga í Skautafélagi Akureyrar árið 2012.
Árið 1979 hélt hann utan til Vesterås í Svíþjóð við fjórða mann, sjálfsagt fyrstir Íslendinga í íshokkí, til “efla sig í íþróttinni” eins og segir í sögu Skautafélags Akureyrar, en hinir brautryðjendurnir vour þeir Baldvin Grétars, Kristján Óskars (Diddó), og Sigurður Baldurson.
Hann spilaði íshokkí fram á 9. áratuginn en þá setti alvarlegt slys í hokkíleik strik í reikninginn. Hann hætti að keppa en hélt áfram að spila með old boys fram yfir aldamót.
Það er ekki ofsögum sagt að Nonni var grjótharður jaxl sem gaf ekkert eftir, sem sýndi sig jafnt á ísnum sem og í hans veikindabaráttu, sem á enga sér líka. Við sem skautuðum með honum lærðum fljótt að halda okkur a.m.k. í kylfufjarlægð frá honum á ísnum annars var voðinn vís. Hann var jafnframt hreinskiptinn og beinskeyttur, sagði hlutina eins og þeir voru.
Með honum hverfur enn einn af okkar gömlu félagsmönnum, dugnaðarforkur sem lagði sitt lóð á vogarskálarnar við að halda félaginu gangandi í mótgangséli uppbyggingaráranna og hjálpaði til við að gera félagið að því sem það er í dag.
Um leið og ég þakka Nonna framlag hans til félagsins, þá vil ég fyrir hönd Skautafélags Akureyrar votta fjölskyldu hans og vinum, innilegar samúðarkveðjur.
F.h. Skautafélags Akureyrar
Sigurður Sveinn Sigurðsson