Marjomótið: Úrslit 2. umferðar

Víkingar, Riddarar, Mammútar og Skytturnar sigruðu í leikjum kvöldsins.

Í A-riðlinum eru Mammútar nú einir á toppnum með tvo sigra, eftir að þeir unnu Fífurnar í kvöld. Garpar og Skytturnar áttust við og lauk þeim leik með sigri Skyttanna, þannig að þessi tvö lið eru nú með einn sigur en Fífurnar eru án sigurs. Mammútar standa því best að vígi og geta tryggt sér sigur í riðlinum ef þeir sigra Garpa í lokaumferð riðilsins. Hins vegar gæti svo farið að Garpar næðu efsta sætinu, þ.e. ef þeir vinna Mammúta og Skytturnar tapa fyrir Fífunum. Þá væru Garpar og Mammútar jafnir með tvo sigra og Garpar væru þá ofar vegna innbyrðis viðureignar. Þriðji möguleikinn er síðan að Garpar sigri Mammúta og Skytturnar sigri Fífurnar, en þá eru þrjú lið jöfn með tvo sigra og jöfn í innbyrðis viðureignum. Þá kemur til árangur úr skotum að miðju. Þar standa Garpar vel að vígi en engu að síður eiga öll þrjú liðin möguleika í þeim útreikningi.

Í B-riðli eru línurnar skýrari. Riddarar og Víkingar hafa unnið báða leiki sína og eigast við í lokaumferð riðilsins, sem þar með er hreinn úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum. Riddarar sigruðu Íslenska drauminn í kvöld og Víkingar Sigruðu Fálka. Íslenski draumurinn og Fálkar eru án sigurs og er leikur þeirra því upp á þriðja sæti riðilsins. Þrátt fyrir stórar tölur í leik Riddara gegn Íslenska drauminum í kvöld er ekki hægt annað en að taka ofan fyrir Íslenska draumnum og leikmönnum liðsins. Því miður áttu bara þrjár þeirra heimangengt í kvöld, þar af ein, Rannveig Jóhannsdóttir, með kornabarn með sér í vagni - og drengurinn heimtaði að sjálfsögðu drykk í miðjum leik. Eitthvað fór hávaðinn í steinunum og hrópin í fyrirliðunum fyrir brjóstið á þeim litla og varð honum lítið svefnsamt framan af leik. Með góðri samvinnu liðanna tókst þó að sjálfsögðu að spila leikinn, ólíklegustu menn farnir að hjala við drenginn og rugga vagninum hans í von um að draga athyglina frá hávaðanum og koma þessum vonandi framtíðar krullumanni í ró.

Úrslit kvöldsins:

A-riðill
Mammútar - Fífurnar  7-6
Skytturnar - Garpar  6-4

B-riðill
Víkingar - Fálkar  8-3
Íslenski draumurinn - Riddarar  3-13

Lokaumferð riðlakeppninnar fer fram miðvikudagskvöldið 13. april en þá eigast við:

A-riðill
Braut 2: Garpar - Mammútar
Braut 3: Fífurnar - Skytturnar

B-riðill
Braut 3: Riddarar - Víkingar
Braut 4: Fálkar - Íslenski draumurinn

Ísumsjón: Mammútar, Skytturnar, Víkingar, Íslenski draumurinn.