Krulludagar: Sjóvá vann Tryggingamótið

Sjóvá - sigurvegarar í Tryggingamóti Krulludaga.
Sjóvá - sigurvegarar í Tryggingamóti Krulludaga.
Frábær endasprettur tryggði liðinu sigur á VÍS í lokaumferðinni.

Tryggingafélögin fjögur, Sjóvá, TM, VÍS og Vörður sendu sitt fólk á svellið í kvöld þar sem fram fór krullumót tryggingafélaga, einn af mörgum viðburðum á Krulludögum 2011. Flestir í hópnum voru að prófa krullu í fyrsta skipti en með smá leiðsögn og æfingu náðu þátttakendur fljótt tökum á grundvallaratriðunum og virtust skemmta sér ágætlega.

VÍS vann fyrstu tvo leiki sína, gegn Verði og TM, og virtist stefna hraðbyri að sigri á mótinu þegar liðið skoraði 3 stig gegn Sjóvá í lokaleiknum. Sjóvá hafði hins vegar unnið fyrsta leik sinn gegn TM en gerði síðan jafntefli við lið Varðar. Í lokaumferðinni hefði VÍS því nægt jafntefli gegn Sjóvá, en Sjóvá varð að leika til sigurs ef liðið ætlaði sér að ná efsta sætinu. Ekki blés byrlega hjá liði Sjóvár því VÍS skoraði þrjú stig og var hreinlega komið með aðra hönd á bikarinn, en lið Sjóvár neitaði að gefast upp, skoraði fjögur stig og vann, 4-3. Það þýddi að Sjóvá komst í fimm stig, en VÍS sat eftir með sárt ennið í öðru sætinu með fjögur stig.

TM vann nokkuð öruggan sigur á liði Varðar í lokaumferðinni. Með sigrinum komst TM upp fyrir Vörð, náði semsagt bronsverðlaunum, en lið Varðar fékk þó þegar upp var staðið viðurkenningu sem "sterkasta liðið", því þegar maður er neðstur á töflunni þarf maður að vera sterkur til að halda öllum hinum uppi.

Krulludagurinn óskar liðsmönnum Sjóvár til hamingju með sigurinn og þakkar öllum þátttakendum fyrir góða skemmtun á svellinu. Vonandi eiga þessi lið eftir að mætast reglulega aftur í krullu í framtíðinni.

(Mynd fljótlega).