Krulla í kvöld - tækniæfing og skemmtikeppni

Fyrsta miðvikudag í mánuði verða krulluæfingar og þá er hugmyndin að brjóta upp hefðbundnar æfingar eða keppni og gera eitthvað öðruvísi. Í kvöld: Blindskot, freestyle langrennsli og fleira. Vanir og óvanir velkomnir!

Meðlimir úr stjórn Krulludeildar munu stýra æfingunni og keppninni (formaður verður fjarverandi). Hér eru drög að skipulagi æfingarinnar og þeim keppnum sem ætlunin er að bjóða upp á:

Krulluæfingar og keppni miðvikudaginn 4. febrúar 2014

Æfing 1 – að miða
Þjálfari stendur með kúst rétt utan við kassa. Leikmaður kemur sér fyrir í spyrnunni, passar að spyrnufóturinn stefni rétt, miðar með því að loka öðru auga og beina útréttri hönd að skotmarkinu (kústi þjálfarans), kemur sér fyrir, en rennir sér síðan með lokuð augun – steininum er ekki sleppt. Markmiðið er að sjálfsögðu að renna með steininn beint á kúst þjálfarans. Hver leikmaður endurtekur þessa æfingu nokkrum sinnum.

Æfing 2 – að renna og teygja
Leikmaður kemur sér fyrir í spyrnunni með tvo steina framan við sig. Rennir sér og heldur einum steini í hvorri hendi. Á meðan leikmaður er á ferð teygir hann hendurnar eins langt fram og hann getur og nálgast þar með svellið með líkamanum. Hver leikmaður endurtekur þessa æfingu nokkrum sinnum.

Skemmtikeppni byggð á gagnlegum æfingum
Blindandi rennsli
Sá leikmaður sem rennir sér næst takmarkinu (sjá æfingu 1) fær 1 stig, næsti 2 stig o.s.frv. Mæling verður kannski aldrei alveg nákvæm.

Hefðbundin langspyrna
Renndu þér á hefðbundinn hátt með einn steinn og kúst/hækju, vertu bein(n), teygðu spyrnufótinn aftur, spenntu rassvöðva og renndu eins langt og þú kemst.

Freestyle langspyrna
Leikmaður spyrnir sér úr spyrnunni, má hafa fleiri en einn stein ef hann vill. Rennslisaðferð er frjáls, nema hvað ekki má halda hraða eða auka hraða með því að spyrna sér á ferð. Sá leikmaður sem rennur lengst fær 1 stig, næsti 2 stig o.s.frv.

Skot að miðju
Markmiðið er að senda stein næst miðju á hinum enda brautarinnar, ekkert sóp, enginn skipper. Hver leikmaður tekur tvö slík skot á hvorri braut (ef það eru tvær brautir) og besta skot gildir. Sá sem á besta skot fær 1 stig, næsti 2 stig o.s.frv.

Sá vinnur heildarkeppnina sem fær fæst stig út úr þessum þremur keppnum.

Smellið hér til að skoða myndband með dæmi um "freestyle langspyrnu". Nemandi í Menntaskólanum á Laugarvatni tók þessa sýninu á dögunum í heimsókn til Akureyrar: