Jötnar stálu stigi af SR

Það leit ekki vel út fyrir Jötnana þegar þeir héldu af stað suður því mikil aföll voru úr liðinu og aðeins 5 Jötnar mættu til leik auk 6 lánsmanna úr Víkingum.  Mikið álag hefur verið á Jötnum undanfarið og eitthvað er það farið að taka sinn toll.  Menn voru engu að síður borubrattir og mættu fullir sjálfstrausts til leiks með tvær línur og Einar Eyland á milli stanganna.

Jötnar komust fljótlega í 2 - 0 og lentu aldrei undir í leiknum fyrr en gullmark SR-inga kom í framlengingu.  Jötnar voru aðeins hársbreidd frá því að krækja í öll stigin fyrir sunnan, en þeir sunnlensku jöfnuðu leikinn skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma. 

Eyland kann vel við sig á sunnlensku svelli, en hann var einmitt í markinu í Laugadalnum í fyrra þegar Jötnar unnu SR.  Samkvæmt tölulegum upplýsingum þá var mikið að gera hjá honum því hann fékk um 60 skot á sig á meðan Ævar fékk helmingi færri á sig hinu megin. 

Í jöfnu Íslandsmóti getur hvert stig skipt miklu máli þegar að úrslitakeppninni kemur.  SR-ingum er eitthvað að fatast flugið eftir góða byrjun á mótinu, en þeir töpuðu fyrir Birninum í síðustu viku.  Sunnanliðin mætast aftur næsta föstudag og það verður væntanlega gríðarlega spennandi leikur.

Jötnarnir hafa hins vegar sýnt klærnar á aðventunni og hafa velgt báðum sunnanliðunum undir uggum í síðustu leikjum.  Næsti leikur Jötna verður hér á Akureyri á næstu dögum ef guð og mótanefnd leyfir.