Jólaskemmtun Jötna: Sextán mörk, framlenging og vító

Mynd: Ásgrímur Ágústsson (15.10.2013)
Mynd: Ásgrímur Ágústsson (15.10.2013)


Jötnar höfðu betur í vítakeppni eftir sextán marka leik og markalausa framlengingu gegn Húnum í gær.

Húnar komu grimmir til leiks og skoruðu með öðru skoti sínu þegar aðeins rétt rúm mínúta var liðin af leiknum. Eftir rúmlega þriggja mínútna leik bættu þeir við öðru marki, en Ben DiMarco minnkaði muninn fyrir Jötna innan við hálfri mínútu síðar.

Þessi fjöruga byrjun gaf fyrirheit um góða skemmtun fyrir þá örfáu áhorfendur sem litu upp úr jólaundirbúningnum og lögðu leið sína í Skautahöllina á Akureyri í gær. Eftir þetta létu mörki reyndar standa á sér þar til á lokamínútum lotunnar, en þá juku Húnar muninn í tvö mörk. Andri Már Ólafsson svaraði því og minnkaði muninn í 2-3 rétt fyrir lok fyrstu lotu.

Helgi Gunnlaugsson jafnaði leikinn í upphafi annars leikhluta, en Húnar svöruðu með tveimur mörkum. Staðan 3-5 eftir annan leikhluta - og fjörið var rétt að byrja.

Snemma í þriðja leikhluta náðu Jötnar að jafna leikinn með mörkum frá Ingólfi Tryggva Elíassyni og Helga Gunnlaugssyni. Húnar komust aftur yfir, en aftur Jafnaði Helgi leikinn. Orri Blöndal kom Jötnum í 7-6, en Lars nokkur Foder jafnaði.

Lokamínúturnar urðu æsispennandi. Húnar komust enn einu sinni yfir, en þegar rúm mínúta var eftir jafnaði Ben DiMarco leikinn í 8-8 með marki úr víti.

Framlengingin var markalaus, en þó æsispennandi því bæði lið fengu fjölda tækifæra til að skora gullmarkið. Meðal annars átti Ben DiMarco skot í stöng og rann pökkurinn þaðan þvert fyrir markið og út.

Það var svo ekki fyrr en í vítakeppninni sem Jötnar tryggðu sér aukastigið. Þar skoruðu Jötnar þrisvar sinnum, en Húnar einu sinni. Rett Vossler sá um að loka í hin skiptin.

Úrslitin: Jötnar - Húnar 8-8 (2-3, 1-2, 5-3, 0-0) + 3-1 - atvikalýsing (ÍHÍ)

Mörk/stoðsendingar
Jötnar

Helgi Gunnlaugsson 3/1
Ben DiMarco 2/3
Orri Blöndal 1/1
Andri Már Ólafsson 1/0
Ingólfur Tryggvi Elíasson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/2
Jóhann Már Leifsson 0/1
Rett Vossler 0/1
Refsimínútur: 20
Varin skot: 43

Húnar
Brynjar Bergmann 3/2
Sturla Snorrason 2/0
Bóas Gunnarsson 1/0
Gunnlaugur Guðmundsson 1/0
Lars Foder 1/0
Andri Helgason 0/1
Aron Knútsson 0/1
Edmunds Induss 0/1
Refsimínútur: 29
Varin skot: 29

Eftir leikinn í gær eru Jötnar komnir í 11 stig og eru tveimur stigum á eftir Húnum. Bæði liðin hafa leikið 10 leiki.

Næsti leikur Jötna verður laugardaginn 28. desember þegar þeir heimsækja Fálka í Laugardalinn. Næsti heimaleikur Jötna verður gegn Húnum 7. janúar, en Víkingar eiga næst heimaleik 21. janúar.