Janúarmótið: 1. umferð

Fyrsta umferð janúarmótsins fór fram í kvöld. Garpar, Skytturnar, Fífurnar og Mammútar unnu í kvöld.

Fyrir leikina í kvöld var dregið í riðla. Í A-riðli eru Garpar, Skytturnar, Víkingar og Svarta gengið. Í B-riðli eru Büllevål, Riddarar, Mammútar og Fífurnar.

Í A-riðlinum voru það Garpar og Skytturnar sem unnu leiki kvöldsins. Skytturnar náðu meðal annars að skora 6 stig í fjórða endanum gegn Víkingum og gerðu með því nánast út um leikinn. Í B-riðlinum unnu Mammútar Riddarana nokkuð örugglega og allt stefndi í öruggan sigur Büllevål gegn Fífunum, en Büllevål er eins konar B-lið Üllevål þar sem tvo fastamenn vantar í liðið í þessu móti og hlupu Davíð Valsson og Ingólfur Helgason í skarðið og gengu til liðs við Andra og Kalla í Üllevål - sem þannig varð Büllevål. Liðið hafði yfirhöndina gegn Fífunum, komst í 4-0, Fífurnar minnkuðu muninn í 4-3 en Büllevål skoraði 4 stig í fimmtu umferðinni, staðan orðin 8-3 og ein umferð eftir. Lítil von fyrir Fífurnar að ná að rétta sinn hlut en þó er auðvitað alltaf einhver von þegar nóg er eftir af steinum. Það ómögulega gerðist líka í lokaumferðinni, Fífurnar skoruðu 5 stig og jöfnuðu þar með leikinn. Því þurfti aukaumferð og þó svo Büllevål hefði síðasta steininn voru það Fífurnar sem skoruðu eitt stig og unnu leikinn, 9-8.

Úrslit kvöldsins:

A-riðill:
Garpar - Svarta gengið   6-3
Skytturnar - Víkingar   9-3

B-riðill:
Büllevål - Fífurnar  8-9
Riddarar - Mammútar  0-10

Öll úrslit og leikjadagskrá í excel-skjali hér.

Næstu leikir eru miðvikudaginn 6. janúar (á þrettándanum) og þá eigast við:

Braut 1: Büllevål - Riddarar
Braut 2: Fífurnar - Mammútar

Braut 3: Garpar - Skytturnar
Braut 5: Svarta gengið - Víkingar

Ísumsjón: Garpar, Skytturnar, Svarta gengið, Víkingar