Íslandsmótið í krullu hefst í kvöld

Mynd: Sigurgeir Haraldsson (2013)
Mynd: Sigurgeir Haraldsson (2013)


Fimm lið eru skráð til leiks á Íslandsmótinu í krullu, öll úr röðum Krulludeildar SA. Fyrsta umferð mótsins verður í kvöld og þá verður einnig dregið um töfluröð.

Leikdagar verða mánudagarnir 27. janúar, 3., 10. og 24. febrúar og 3. mars. Gert verður hlé á mótinu mánudaginn 17. febrúar, en spilað þá ef fresta hefur þurft leik eða leikjum fram að því.

Spiluð verður einföld umferð, allir við alla, en síðan fara fjögur efstu liðin í úrslitakeppni, svokallað Page Playoff eins og verið hefur undanfarin ár. Þá spila fyrst 1v2 og 3v4. Sigurliðið úr 1v2 fer beint í úrslitaleik, en tapliðið fer í undanúrslitaleik gegn sigurliðinu úr 3v4. Tapliðið úr 3v4 leikur um bronsið gegn tapliðinu í undanúrslitaleiknum. Dagsetningar fyrir úrslitakeppnina verða ákveðnar síðar og auglýstar þegar þar að kemur.

Athygli er vakin á því að allir leikir verða átta umferðir að lengd. Jafntefli eru ekki leyfð og því leikin aukaumferð ef jafnt er að loknum átta umferðum. Að lokinni upphitun tekur lið skot að miðju og ræður árangur úr skotinu hvort liðið hefur val um síðasta stein. Jafnframt getur meðaltal úr skotum að miðju (að slepptu hæsta gildi hvers liðs) ráðið röð liða sem enda jöfn að vinningum og eru jöfn í innbyrðis viðureignum. Ef lið eru hins vegar jöfn að vinningum í sæti/sætum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppninni verður skorið úr því með aukaleik(jum) hvaða lið fer í úrslitakeppnina, sbr. reglur WCF um "tie-breakers".

Að öðru leyti er vísað í mótareglur Krulludeildar og Krullureglur Alþjóða Krullusambandsins, WCF. Krullufólk er hvatt til að kynna sér og læra krullureglurnar.

Fimm lið eru skráð til leiks:
Freyjur: Heiðdís B. Karlsdóttir, Hugrún Ósk Ágústsdóttir, Martin Gossweiler, Rannveig Jóhannsdóttir og Svanfríður Sigurðardóttir

Garpar: Árni Grétar Árnason, Gunnar H. Jóhannesson, Hallgrímur Vallson, Kristján Bjarnason og Ólafur Hreinsson

Ice Hunt: Davíð Valsson, Haraldur Ingólfsson, Kristján Þorkelsson, Rúnar Steingrímsson, Sævar Örn Sveinbjörnsson.

Mammútar: Jens Kristinn Gíslason, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason, Sveinn H. Steingrímsson og Sigurður Ingi Steindórsson. 

Víkingar: Gísli Jón Kristinsson, Jóhann Björgvinsson, Jón Rögnvaldsson, Leifur Ólafsson og Sigfús Sigfússon.