Íslandsmótið í krullu: Garpar í úrslitaleikinn


Garpar sigruðu Mammúta og Ice Hunt sigraði Freyjur í fyrstu umferð úrslitakeppni Íslandsmótsins í krullu í gærkvöldi.

Leikur Garpa og Mammúta var hnífjafn en Garpar náðu þriggja stiga forystu fyrir síðustu umferðina sem Mammútum tókst ekki að vinna upp. Garpar fara því beint í úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn, en Mammútar fara í undanúrslitaleik.

Í hinum leiknum byrjuðu Freyjur betur og komust í 3-0, en Ice Hunt náði að jafna í fjórðu umferð. Í sjöttu umferðinni munaði hársbreidd að Freyjum tækist að skora eitt stig, en í staðinn fengu Ice Hunt tvö stig og svo aftur tvö í næstsíðustu umferðinni. Lokatölurnar 7-4 Ice Hunt í vil. Ice Hunt fer því í undanúrslitaleik gegn Mammútum, en Freyjurnar fara beint í leik um bronsverðlaun.

Eftir samráð á milli liðanna í gærkvöldi var ákveðið að breyta frá áður fyrirhugaðri dagskrá úrslitakeppninnar. Undanúrslitaleikurinn verður spilaður mánudagskvöldið 17. mars þrátt fyrir að þá verði einnig hópur í krullukynningu. Úrslitaleikirnir fara svo fram mánudagskvöldið 24. mar.

Sigurliðið úr leik Mammúta og Ice Hunt fer í úrslitaleikinn gegn Görpum, en tapliðið leikur um bronsverðlaun gegn Freyjum.