Íslandsmótið i krullu: Eitt lið ósigrað

Mammútar eru nú eina liðið sem hefur unnið alla leiki sína þegar fjórum umferðum er lokið í deildarkeppni Íslandsmótsins.

Mammútar sigruðu Riddara í fjórðu umferðinni en á sama tíma töpuðu Skytturnar sínum fyrsta leik í mótinu þegar liðið mætti Görpum. Allir fjórir leikir fjórðu umferðarinnar voru jafnir og spennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í blálokin. Garpar og Skyttur stóðu jöfn að stigum fyrir lokaumferðina og í lok síðustu umferðarinnar áttu liðin steina sem virtust næstum jafnnærri miðjunni. Garpar áttu einn stein eftir en ákváðu að hætta ekki á að eyðileggja fyrir sér heldur tóku þeir áhættuna á að þeirra steinn myndi reynast nær - og sú varð raunin við mælingu. Riddarar voru nálægt því að stela stigum af Mammútum í lokaumferðinni og vinna þannig leikinn en síðasti steinn Riddara var of stuttur og var úr leik. Það gaf Mammútum greiða leið eftir miðjunni og brást þeim ekki bogalistin að koma steini inn fyrir tvo steina Riddaranna. Svarta gengið og Víkingar stóðu einnig jöfn að stigum fyrir lokaumferðina, eftir að Víkingar komust í 3-1 en Svarta gengið jafnaði - og lokaumferðin spilaðist þannig að lokasteinn Víkinga mistókst og endaði Svarta gengið á að fá fjóra steina og sigra 7-3. Fífurnar náðu yfirhöndinni í byrjun leiks gegn Üllevål en ljósbláu strákarnir tóku öll stigin í síðari hluta leiksins og hirtu sigurinn.

Úrslit 4. umferðar:

 Garpar (185,4) - Skytturnar (78) 
 5-4 
 Mammútar (41) - Riddarar (10) 
 6-4
 Svarta gengið (169) - Víkingar (185,4)
 7-3
 Fífurnar (185,4) - Üllevål (37)
 3-6

Mammútar eru nú efstir með 4 sigra, Skytturnar hafa unnið 3 leiki en þar á eftir koma Svarta Gengið, Riddarar og Garpar með 2 sigra og síðan Víkingar, Üllevål og Fífurnar með einn sigur. Üllevål náði einmitt sínum fyrsta sigri í mótinu í kvöld.

Öll úrslit og leikjadagskrá er að finna í excel-skjali hér.

Fimmta umferð deildarkeppni Íslandsmótsins verður leikin næstkomandi miðvikudagskvöld, 10. febrúar, og eigast þá við:

Braut 1: Víkingar - Mammútar
Braut 2: Üllevål - Svarta gengið
Braut 4: Riddarar - Garpar
Braut 5: Skytturnar - Fífurnar

Ísumsjón: Riddarar, Skytturnar, Fífurnar, Garpar.