Íslandsmótið: Garpar einir á toppinn

Mammútar misstigu sig, Garpar unnu sinn leik.

Garpar komust einum vinningi fram úr Mammútum eftir leiki gærkvöldsins en liðin eiga nú bæði tvo leiki eiftir. Garpar sigruðu Skytturnar eftir að hafa skorað fjóra í fyrstu umferðinni en á sama tíma töpuðu Mammútar fyrir Víkingum. Fálkar sigruðu Riddara og eru nú einir í þriðja sætinu.

Garpar leika gegn Fífum á miðvikudagskvöldið og síðan gegn Víkingum í lokaumferðinni mánudaginn 28. mars. Mammútar leika gegn Skyttunum á miðvikudagskvöldið og Riddurum í lokaumferðinni. Garpar geta tryggt sér titilinn með því einfaldlega að vinna báða leikina, en Mammútar verða að vinna báða sína og treysta á að Garpar tapi a.m.k. öðrum leiknum til að knýja fram úrslitaleik um titilinn. Önnur lið hafa fyrir nokkru misst af möguleika á titlinum. 

Keppnin um bronsið harðanar hins vegar með hverri umferðinni. Fálkar eru nú einir í þriðja sætinu en eiga aðeins einn leik eftir, gegn Víkingum á miðvikudagskvöldið. Fálkar sitja síðan yfir í lokaumferðinni. Með sigri á Víkingum gætu Fálkar þó farið langleiðina með að tryggja sér bronsið, kæmust þá í sex sigra og aðeins Skytturnar sem gætu náð þeim. Gerist það kemur til kasta árangurs þessara liða í skotum að miðju þar sem þau unnu hvort sinn leikinn sín á milli. Sigri Víkingar Fálka er allt opið og raunar er sá möguleiki fyrir hendi að fjögur lið endi jöfn með fimm vinninga í þriðja sætinu, þ.e. Skytturnar, Víkingar, Riddarar og Fálkar. Komi sú staða upp fengju Fálkar bronsið miðað við úrslit í innbyrðis viðureignum þessara fjögurra liða. Skytturnar og Víkingar gætu þó skotið hinum ref fyrir rass og komist í 6 sigra með því að vinna báða leikina sem eftir eru. Endi aðeins Skytturnar og Víkingar jöfn í þriðja sætinu eru það Skytturnar sem hljóta bronsið þar sem liðið vann báðar viðureignirnar gegn Víkingum. 

Úrslit 13. umferðar:

Garpar - Skytturnar  6-3
Mammútar - Víkingar  2-7
Fálkar - Riddarar  5-3

Hin frestaða 12. umferð fer fram miðvikudagskvöldið 23. mars:

Braut 2: Víkingar - Fálkar
Braut 4: Fífurnar - Garpar
Braut 5: Skytturnar - Mammútar

Ísumsjón: Fálkar, Garpar, Mammútar