Ísland upp um eitt sæti

Alþjóða krullusambandið hefur gefið út styrkleikalista fyrir árið 2010.

Íslendingar voru hástökkvarar listans í fyrra, fóru þá upp um fjögur sæti. Með því að vinna fjóra leiki og enda í þriðja sæti C-keppninnar færumst við upp um eitt sæti til viðbótar, upp fyrir Serba. Ísland er í 37. sæti af 43 í karlaflokki, en þrjú ný ríki bætast á listan að þessu sinni, Armenía, Rúmenía og Slóvenía. Búast má við að þau tvö síðasttöldu verði á meðal keppenda í C-keppninni 2011.

Hástökkvarar þetta árið eru Kóreumenn, sem hækka um fjögur sæti, og svo Slóvakar sem náðu frábærum árangri í B-keppni Evrópumótsins í Sviss nú á dögunum. Þar náðu þeir öðru sæti í sínum riðli og léku á endanum um brons í B-flokki en töpuðu þeim leik, enduðu semsagt í 4. sæti B-keppninnar. Til gamans má geta að Íslendingar unnu Slóvaka á Evrópumótinu bæði 2009 og í C-keppninni á þessu ári.

Tólf efstu sætin eru óbreytt frá fyrra ári í karlaflokki og tróna Kanadamenn þar á toppnum. Í kvennaflokki eru Svíar á toppnum en þar er næstum allt óbreytt frá fyrra ári alveg niður í 16. sæti.

Smellið á tengilinn hér að neðan til að skoða listann..