Íshokkídeildin hlaut styrk frá NHL

Ljósmynd Ásgrímur Ágústsson
Ljósmynd Ásgrímur Ágústsson

Félagið fékk sendingu frá Ameríku sem innihélt 20 heilgalla á börn, þ.e. alla hlífar auk hjálma og kylfa. Tilgangurinn á bakvið þessa rausnarlegu gjöf er að styðja við íþróttina og gefa börnum tækifæri á að prófa íþróttina án þess alls þess tilkostnaðar sem getur fylgt því að byrja. Þessir gallar skipta íshokkídeildina miklu máli og styrkir byrjendastarf deildarinnar.

Þessi leikmannasamtök bestu íshokkídeildar í heimi hafa undanfarin 12 ár útdeilt styrkjum til uppbyggingar íþróttarinnar og þá fyrst og fremst í formi útbúnaðar líkt og í þessu tilviki. Forsagaga þess að búningarnir enduðu hér hjá okkur, er sú að maður að nafni Phil Mass kom hingað með old boys liði frá Toronto í Kanada og hafði svo í framhaldinu samband við Clark McCormick og vakti athygli hans á þessum styrkmöguleika.  Clark kom þessu áfram til Söruh Smiley sem setti umsóknarferlið af stað sem síðan skilaði þessari veglegu gjöf til okkar.  Phil Mass kom aftur hingað til lands fyrr á þessu ári og kom hingað til Akureyrar með liði sínu og tilkynnti þá okkur formlega, á ísnum skömmu fyrir leik á milli Toronto og Skautafélags Akureyrar, um samþykki NHLPA á þessari styrkveitingu til Skautafélags Akureyrar.

Við erum auðvitað mjög þakklát öllum þeim sem að þessu máli komu og það er virkilega skemmtilegt að sjá þetta verða að veruleika líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.  Allir gallarnir eru nú í notkun, nema tveir minnstu, og hefur þetta svo sannarlega styrkt starf deildarinnar.

Morgunblaðið birti góða umfjöllun um málið á baksíðu helgarblaðsins í gær með stórri mynd og Vikudagur gerði slíkt hið sama í vikunni.  Heimasíðu samtakanna má skoða hér http://www.nhlpa.com/ en þar kemur m.a. fram að samtökin hafa á síðustu 12 árum veitt styrki til uppbyggingar íþróttarinnar að upphæð 20 milljón dollara sem er vel á þriðja milljarð íslenskra króna.

Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra káta krakka í hinum nýju göllum ásamt tveimur þjálfurum, þeim Söruh Smiley og Veigari.  Myndina tók Ásgrímur Ágústsson.