Ice Cup: Nokkrar ábendingar um hegðun á svellinu

Nokkur atriði til áréttingar, ábendingar til leikmanna.

Eftir fyrstu umferðina í gær er ástæða til að árétta nokkukr atriði varðandi leikreglur og  framkomu á svellinu. Leikmenn sem taka þátt í mótinu eru misvanir því að leika krullu, misvanir því að taka þátt í mótum og því gott að hafa nokkur mikilvæg atriði í huga þegar á svellið er komið.

Nokkrir leikir í gær vou of langir, einn eða tveir voru allt of langir. Liðsstjórar og allir leikmenn eru beðnir um að hafa í huga að valda ekki óþarfa töfum á leiknum. Þegar kemur að þér að senda stein átt þú að vera tilbúinn að senda þinn stein áður eða um það bil sem fyrirliðinn gefur merki. Þegar umferð lýkur á fyrsti maður í liðinu sem hefur næstu umferð strax að gera sig kláran og láta aðra leikmenn um að raða upp steininum. Finndu þinn stein og vertu tilbúinn. Gefið hinu liðinu eftir brautina um leið og ykkar steinn stöðvast. Ekki standa í kringum steinana og ræða um skotið sem var verið að framkvæma. Liðsstjórar verða einnig að passa sig á því að taka ekki of mikinn umhugsunartíma.

Mikilvægt er að trufla ekki andstæðinginn þegar hann á leik. Leikmenn, allir nema fyrirliði, eiga að stilla sér upp meðfram brautinni, utan við kassann og bíða þar, helst standa kyrrir, á meðan hitt liðið leikur sínum steini. Hávær köll og fleira í þeim dúr á brautinni og aftan við þann sem á leik á meðan hitt liðið er að gera eru ókurteisi við andstæðinginn og trufla einbeitingu þess sem er að senda steininn.

Sýnum keppinautunum kurteisi, höfum gaman af leiknum. Þekkjum leikreglurnar og virðum þær.