Ice Cup: Langar þig að leika með erlendum keppendum?

Erlendir keppendur sem hafa áhuga á að koma á Ice Cup óska eftir meðspilurum.

Við kynningu á Ice Cup hefur verið boðið upp á þann möguleika að keppendur sem vilja koma og taka þátt geti skráð sig án þess að vera með fullt lið, jafnvel bara sem einstaklingar. Þannig er ætlunin að ná til fleiri sem mögulega hafa áhuga á að koma en ná ekki í fullt lið í sínu heimalandi eða vinahóp. Nú þegar hafa borist nokkrar fyrirspurnir frá mögulegum keppendum sem hugsanlega myndu koma einir, tveir saman eða jafnvel þrír og þá vantar leikmenn til að fylla í þau lið. Hugsanlegt er að búin verði til lið með því að para saman erlenda keppendur sem koma ekki með fullskipað lið eða þá að fyllt verður í liðin með heimafólki. Ef til vill er þetta líka skemmtilegt tækifæri fyrir lið og leikmenn hér til að stokka upp spilin og prófa að spila með öðrum en venjulega. Að sjálfsögðu er ekkert lögmál sem segir að liðin eins og þau eru skipuð yfir veturinn þurfi að vera eins skipuð á Ice Cup. Sá sem þetta ritar hefur notið þeirrar gæfu að fá að spila með tveimur erlendum gestum sem hingað komu og það var bæði skemmtileg og lærdómsrík reynsla sem ég hefði ekki viljað missa af. Án þess að með þessum skilaboðum sé ætlunin að sundra liðum þá vil ég hvetja fólk sem hefur áhuga á að prófa eitthvað nýtt til að hugleiða þennan möguleika. Krullufólk sem hefur áhuga á að leika hugsanlega með erlendum gestum í liði á Ice Cup er beðið um að hafa samband í netfangið haring@simnet.is, í s. 824 2778 eða láta vita með öðrum hætti.