Ice Cup: Keppnisfyrirkomulag

Fjórtán lið taka þátt í Ice Cup. Ákvörðun liggur fyrir um keppnisfyrirkomulagið. Með skiptingu í tvo hópa/riðla munu öll liðin vita eftir dráttinn í kvöld hvenær þau spila á fimmtudag og föstudag.

Reglur mótsins:

1.
Leiknar eru fjórar umferðir samkvæmt svokölluðu Schenkel-kerfi og síðan úrslitaleikir um verðlaunasæti.
Í upphafi er liðunum skipt í tvo riðla (6 + 8) og leika liðin þrjá leiki innan þeirra (fimmtudagur og föstudagur). Síðan fara öll liðin í einn pott og spila einn leik til viðbótar (laugardagsmorgunn). Tvö stig fást fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli. Í hverri umferð er leitast við að raða saman í leiki þannig að lið leiki gegn andstæðingi sem er sem næst því í röðinni eftir því sem kostur er. Lið leikur ekki tvisvar gegn sama andstæðingi (úrslitaleikir frátaldir).  Að lokum leika tvö efstu liðin um sigur í mótinu og tvö næstu um bronsverðlaun. 

 

2.

Röðun liða. Eftir hverja umferð er liðunum raðað eftir stigum. Ef lið eru jöfn að stigum raðast þau eftir fjölda unninna umferða. Ef þau eru þá enn jöfn raðast þau eftir fjölda skoraðra steina. Ef það dugar ekki til að ákvarða hvaða lið leika til úrslita um verðlaun skal fara fram skotkeppni milli viðkomandi liða. Þar renna fjórir úr hvoru liði til skiptis steini að miðju hrings. Leyft er að sópa. Fjarlægð frá miðju hrings að steini er mæld og lögð saman fyrir allt liðið. Það lið sem þannig fær lægri samtölu telst ofar í röðinni

 

3.
Lengd leikja.
Í almennu keppninni eru allir leikir 7 umferðir og skulu þær allar kláraðar. Kastað er upp á það (eða snúið steini) hvort liðið á val um síðasta stein. Ekki er gefinn tími til upphitunar- eða æfingaskota við upphaf leikja. Almennt viðmið er að ekki taki lengri tíma en 15 mínútur að leika hverja umferð. Krullufólk er hvatt til að haga leik sínum þannig að ekki komi til óþarfa tafa. Verið tilbúin þegar kemur að ykkur og takið ekki óhóflega langan tíma til umhugsunar. Úrslitaleikir um sæti eru 8 umferðir (heimilt að hætta leik fyrr).

 

4.

Leikjadagskrá. Hvert lið leikur einn leik á fimmtudag (5. maí), tvo leiki á föstudag (6. maí) og einn leik fyrir hádegi á laugardag (7. maí). Fjögur efstu liðin leika síðan úrslitaleiki um sæti eftir hádegi á laugardag. Leikir hefjast kl. 18.00 og 20.30 á fimmtudag, kl. 9.00, 11.30, 14.30 og 17.00 á föstudag, og kl. 9.00 og 11.30 á laugardag. Úrslitaleikir hefjast kl. 14.00 á laugardag.

 

5.
Að öðru leyti gilda reglur Alþjóða krullusambandsins, WCF, eftir því sem við á.