Heimslistinn: Ísland upp um eitt sæti

Ísland nú komið í 36. sæti á heimslistanum í krullu.

Þrátt fyrir að tvö undanfarin ár hafi íslenska karlalandsliðinu ekki tekist að vinna sig upp úr C-flokki unnum við nokkra leiki í hvort skipti og sigrarnir telja þegar raðað er á heimslistann. Í karlaflokki eru alls 48 þjóðir á listanum. Neðan við okkur eru Búlgarir, Serbar, Tyrkir, Brasilíumenn, Lúxemborgarar, Rúmenar, Andorramenn, Slóvenar, Kazakhstanar, Armenar, Liechtensteinar og íbúar bandarísku Jómfrúreyja. Ísland er með 18 stig en næst fyrir ofan okkur eru Grikkir með 22 stig, Hvít-Rússar með 28 stig og svo Litháar með 32 stig en þeir eru á meðal hástökkvara listans, fóru upp um þrjú sæti frá því í fyrra.

Sem aðili að Alþjóða krullusambandinu er Ísland einnig á heimslista kvenna þó svo við höfum aldrei sent landslið héðan til keppni á EM. Þar eru tíu þjóðir jafnar í 39.-48. sæti án stiga.

Listana í heild má sjá á heimasíðu WCF hér.