Guðmundur Pétursson heiðraður

Guðmundur Pétusson tekur við viðurkenningunni. Ljósm.Þórir Tryggvason
Guðmundur Pétusson tekur við viðurkenningunni. Ljósm.Þórir Tryggvason
Íþróttaráð Akureyrar veitti á dögunum viðurkenningar til nokkurra einstaklinga sem hafa í gegnum tíðina lagt sín lóð á vogarskálarnar í þágu íþróttamála á Akureyri.  Einn þeirra sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni var Guðmundur Pétursson, eða Kubbi eins og við Skautafélagsfólk þekkjum hann.  Kubbi fæddist í Innbænum árið 1940 þar sem hann átti sín æsku og ungdómsár og byrjaði snemma að renna sér á skautum líkt og Innbæinga er siður.
 
Hann hefur allra manna lengst setið í formannsstóli SA, frá 75-76 og aftur frá 79 – 89.  Lengi vel bar hann félagið á herðum sér og barðist fyrir rekstri og viðhaldi skautasvæðanna hér í bænum.  Sá hann þá bæði um samskipti við íþrótta- og bæjaryfirvöld auk þess sem hann skilaði ómældri vinnu við uppbyggingu og viðhald svæðanna.

Hann hefur verið einnig verið manna ötulastur við að halda utan um sögu félagsins og var m.a. formaður ritnefndar við útgáfu bókarinnar um sögu félagsins sem Jón Hjaltason skrifaði og Skautafélagið gaf út árið 1998.

Auk þess hafa bæði spilað íshokkí og blak og stundað hraðhlaup með Skautafélaginu hér á árum áður þá fór Kubbi við annan mann, fyrstur Íslendinga, erlendis á dómaranámskeið fyrir íshokkí.  Í framhaldinu dæmdi Guðmundur flesta leiki sem spilaði voru hérlendis.  Síðari ár stundaði hann krullu af nokkru kappi.

Kubbi var formaður Skautanefndar ÍSÍ sem kom á fyrsta íslandsmótinu í íshokkí þar sem þrjú lið tóku þátt árið 1991 og síðar varð hann fyrsti varaformaður Skautasambands Íslands þegar það var stofnað árið 1995

Það hafa fáir ef nokkrir núlifandi félagsmenn gefið Skautafélaginu meira af sínum tíma í gegnum tíðina en Guðmundur Pétursson.